Forgangsmarkmið ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin samþykkti í júní 2018 að forgangsraða 65 af 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við innleiðingu þeirra á Íslandi. Forgangsröðunin tekur mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar auk þess sem þeim markmiðum var forgangsraðað sem krefjast mestrar vinnu af hálfu stjórnvalda til að þeim megi ná fyrir árið 2030. 

Forgangsmarkmiðin endurspegla áherslur stjórnvalda við innleiðingu markmiðanna næstu árin. Þau útiloka þó ekki að unnið verði að innleiðingu annarra markmiða, sér í lagi þeirra sem vel eru á veg komin. Þá verður jafnframt lögð áhersla á að miðla reynslu og þekkingu Íslands til annarra þjóða heimsins.

 Forgangsmarkmiðin

                       
 Innanlands   
                       
 Alþjóðasamstarf   
                       
 Innanlands + Alþjóðasamstarf 

Engin fátækt

1.1 
Eigi síðar en árið 2030 hafi sárri fátækt verið útrýmt alls staðar. Miðað verði við að enginn hafi minna á milli handanna en sem nemur 1,25 bandaríkjadölum á dag til að framfleyta sér.
1.2
Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.

Ekkert hungur

2.1  Eigi síðar en árið 2030 hafi hungri verið útrýmt og aðgengi allra tryggt, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, þar á meðal ungbarna, að nægum, öruggum og næringarríkum mat allt árið um kring.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

3.1
Eigi síðar en árið 2030 verði dauðsföll af völdum barnsburðar í heiminum komin niður fyrir 70 af hverjum 100.000 börnum sem fæðast á lífi.
3.2
Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir nýburadauða og andlát barna undir fimm ára aldri, sem unnt er að afstýra, og stefnt að því að öll lönd nái tíðni nýburadauða niður í 12 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi og dánartíðni barna undir fimm ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi.
3.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.
3.5 Efldar verði forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis.
3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu.
3.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilbrigðisþjónustu á sviði kynheilbrigðis, meðal annars fyrir þá sem ætla að stofna fjölskyldu, og fræðsla og upplýsingagjöf veitt því tengdu. Tryggt verði að kynheilbrigði verði fellt inn í landsáætlanir.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Menntun fyrir alla

4.1
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun.
4.4
Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.
4.7   Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.
4.A   Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir.
4.C   Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Jafnrétti kynjanna

5.1
Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar.
5.2
Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þ.m.t. mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið.
5.3 Allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og limlesting kynfæra kvenna og stúlkna, verði lagðir niður.
5.5 Tryggð verði virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

6.1
Eigi síðar en árið 2030 standi öllum til boða heilnæmt drykkjarvatn á viðráðanlegu verði hvar sem er í heiminum.
6.2
Eigi síðar en árið 2030 hafi allir jafnan aðgang að fullnægjandi hreinlætisaðstöðu og enginn þurfi að ganga örna sinna utan dyra. Í þessu tilliti verði sérstaklega hugað að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.
6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun og lágmarka losun hættulegra efna og efnablandna. Hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns verði minnkað um helming og endurvinnsla og örugg endurnýting aukin til muna um heim allan.
6.5 Eigi síðar en árið 2030 verði stjórnun vatnsauðlinda samþætt á öllum sviðum, meðal annars með samstarfi yfir landamæri eftir því sem við á.
6.6 Eigi síðar en árið 2020 verði unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn.
6.B Stutt verði við byggðarlög til að bæta vatnsstjórnun og hreinlæti.

Sjálfbær orka

7.2 
Eigi síðar en árið 2030 hafi hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum heimsins aukist verulega.

Góð atvinna og hagvöxtur

8.1
Viðhaldið verði hagvexti á hvern einstakling í samræmi við aðstæður í hverju landi og að minnsta kosti 7% vexti vergrar landsframleiðslu á ári í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.
8.2
Aukinni framleiðni í atvinnulífinu verði náð með fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun, meðal annars með því að beina athygli að vinnuaflsfrekum geirum sem fela í sér mikinn virðisauka.
8.4 Fram til ársins 2030 verði nýting auðlinda til neyslu og framleiðslu bætt jafnt og þétt og leitast við að draga úr hagvexti sem gengur á náttúruna í samræmi við tíu ára rammaáætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, með hátekjuríkin í fararbroddi.
8.5 Eigi síðar en árið 2030 verði full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir allar konur og karla, þar á meðal ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf.
8.9 Eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.

Nýsköpun og uppbygging

9.1
Þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla.
9.5
Vísindarannsóknir verði efldar og tæknigeta atvinnugreina í öllum löndum endurbætt, þar á meðal í þróunarlöndum. Eigi síðar en árið 2030 verði ýtt undir nýsköpun og fjölgað störfum við rannsóknir og þróun fyrir hverja milljón íbúa, auk þess sem útgjöld til rannsókna og þróunar hins opinbera og einkageirans verði aukin.
9.C Aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði aukið verulega og lagt kapp á að almenningur hafi aðgang að netinu á viðráðanlegu verði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.

Aukinn jöfnuður

10.2 
Eigi síðar en árið 2030 verði öllum gert kleift að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti af efnahagsmálum og stjórnmálum, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða, efnahags eða annarrar stöðu.
10.3
Tryggð verði jöfn tækifæri og dregið úr ójöfnuði, meðal annars með afnámi laga, breyttri stefnumótun og starfsháttum sem ala á mismunun, samhliða því að þrýsta á lagasetningu, stefnumótun og starfshætti sem styðja við markmiðið.

Sjálfbærar borgir og samfélög

11.1
Eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, fátækrahverfi verði endurbætt og grunnþjónusta standi öllum til boða.
11.2
Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum.
11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins. 
11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, meðal annars með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs.
11.A Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

Ábyrg neysla og framleiðsla

12.1
Hrundið verði í framkvæmd tíu ára rammaáætlunum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu þar sem öll lönd, með hátekjuríkin í fararbroddi, grípa til aðgerða. Tekið verði tillit til þróunar og getu þróunarlandanna.
12.2
Eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð.
12.7 Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.
12.C Óhagkvæmar niðurgreiðslur vegna jarðefnaeldsneytis, sem ýta undir sóun, verði færðar til betri vegar með því að aflétta markaðshömlum, í samræmi við innlendar aðstæður, meðal annars með því að endurskipuleggja skattlagningu og leggja niðurgreiðslur niður í áföngum í ljósi skaðlegra umhverfislegra áhrifa. Tekið verði fullt tillit til sérþarfa og aðstæðna þróunarlanda og haldið í skefjum aðgerðum sem gætu haft skaðleg áhrif á þróun fátækra samfélaga.

Aðgerðir í loftslagsmálum

13.2 
Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.
13.A
Efnd verði fyrirheit hátekjuríkja um 100 milljarða dala framlag, bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum, í því skyni að aðstoða þróunarlönd við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að gagnsæjum aðgerðum. Jafnframt verði unnið sem fyrst að fjármögnun Græna loftslagssjóðsins svo að hann geti starfað af fullum krafti.

Líf í vatni

14.1
Eigi síðar en árið 2025 verði verulega dregið úr og komið í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af völdum næringarefna. 
14.2
Eigi síðar en árið 2020 verði gengið vel um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif, þar á meðal með því að grípa til aðgerða til að endurheimta og hlúa að vistkerfunum og njóta ábatans.
14.3 Unnið gegn súrnun sjávar og skaðlegum áhrifum haldið í skefjum, t.d. með því að efla vísindasamstarf á því sviði.
14.7 Eigi síðar en árið 2030 hafi þau þróunarlönd sem eru smáeyríki og þau sem skemmst eru á veg komin hlotið efnahagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda, meðal annars með því að ástunda sjálfbæra stjórn fiskveiða, sjálfbært fiskeldi í sjó og sjálfbæra ferðaþjónustu.
14.C Vernda og efla sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess með því að framfylgja alþjóðalögum, sbr. ákvæði þar að lútandi í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um varðveislu og sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess og nefnt er í 158. gr. í skýrslunni „The future we want“.

Líf á landi

15.1
Eigi síðar en árið 2020 verði vistkerfi á landi og í ferskvatni vernduð og stuðlað að sjálfbærri nýtingu þeirra og endurheimt, einkum skóga, votlendis, fjalllendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum. 
15.2
Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbærni skóga af öllu tagi, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurrækta skóga um allan heim. 
15.3 Eigi síðar en árið 2030 verði barist gegn eyðimerkurmyndun, leitast við að endurheimta hnignandi land og jarðveg, þ.m.t. land sem er raskað af eyðimerkurmyndun, þurrkum og flóðum, og unnið að því að koma á jafnvægi milli hnignunar og endurheimtar lands í heiminum. 
15.5 Gripið verði til brýnna og nauðsynlegra aðgerða til að sporna við hnignun náttúrulegra búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni. Eigi síðar en árið 2020 verði gripið til aðgerða til að vernda tegundir í bráðri hættu og koma í veg fyrir útrýmingu þeirra.
15.6 Stuðlað verði að sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og eðlilegum aðgangi að slíkum auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum. 
15.8 Gripið verði til ráðstafana eigi síðar en árið 2020 til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra, framandi tegunda og dregið verulega úr áhrifum þeirra á vistkerfi á landi og í vatni. Tegundunum efst á lista verði útrýmt eða útbreiðslu þeirra eða fjölgun stýrt.
15.9 Eigi síðar en árið 2020 verði tekið tillit til gildis vistkerfis og líffræðilegrar fjölbreytni við gerð lands- og svæðisáætlana og í öllu þróunarferli, skýrslugerðum og aðgerðum til að draga úr fátækt.

Friður og réttlæti

16.1
Dregið verði verulega úr hvers kyns ofbeldi og dauðsföllum sem rekja má til þess. 
16.3
Réttarríkið verði eflt á landsvísu og á alþjóðlegum vettvangi og tryggt verði jafnt aðgengi allra að réttarkerfinu. 
16.5   Dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum. 

Samvinna um markmiðin

17.2
Hátekjuríkin standi að fullu við skuldbindingar sínar um opinbera þróunaraðstoð, meðal annars þá skuldbindingu margra þeirra að láta 0,7% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda og 0,15–0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þeirra sem eru skemmst á veg komin. Þau ríki sem veita opinbera þróunaraðstoð verði hvött til þess að setja sér það markmið að láta a.m.k. 0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda sem eru skemmst á veg komin.
17.3
Kallað verði eftir viðbótarfjármagni hvaðanæva að til handa þróunarlöndum.
17.10 Stuðlað verði að alþjóðlegu og opnu viðskiptakerfi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem byggist á réttlátu og marghliða regluverki með jafnræði að leiðarljósi, þar sem meðal annars verði stefnt að því að ljúka Doha-viðræðunum. 
17.17 Hvetja til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira