14. Líf í vatni

Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun

Undirmarkmið:

14.1 Eigi síðar en árið 2025 verði verulega dregið úr og komið í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af völdum næringarefna. 

14.2 Eigi síðar en árið 2020 verði gengið vel um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif, þar á meðal með því að grípa til aðgerða til að endurheimta og hlúa að vistkerfunum og njóta ábatans. 

14.3 Unnið gegn súrnun sjávar og skaðlegum áhrifum haldið í skefjum, t.d. með því að efla vísindasamstarf á því sviði. 

14.4 Eigi síðar en árið 2020 verði komið á skilvirku eftirliti með afla og tekið fyrir ofveiði og ólöglegar, óskráðar og stjórnlausar fiskveiðar og skaðlegar veiðiaðferðir. Hrundið verði í framkvæmd áætlunum um stjórn fiskveiða, sem byggjast á vísindalegum grunni, í því skyni að endurheimta fiskstofna á sem skemmstum tíma, a.m.k. að því marki að hámarka sjálfbærni stofna með tilliti til líffræðilegra eiginleika. 

14.5 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að vernda a.m.k. 10% af strandlengjum og hafsvæðum heimsins í samræmi við landslög og alþjóðalög, að teknu tilliti til bestu tiltæku, vísindalegu upplýsinga. 

14.6 Eigi síðar en árið 2020 verði tilteknar niðurgreiðslur í sjávarútvegi, sem stuðla að ofveiði, bannaðar sem og niðurgreiðslur sem stuðla að ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum fiskveiðum. Jafnframt verði reynt að koma í veg fyrir að niðurgreiðslur verði teknar upp í nýju formi og horfst í augu við að mismunandi aðferðir eiga við og eru skilvirkari fyrir þróunarlöndin og ættu í raun að vera órjúfanlegur þáttur í samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um niðurgreiðslur í sjávarútvegi þróunarríkjunum til handa og þá þeim sem skemmst eru á veg komin.

14.7 Eigi síðar en árið 2030 hafi þau þróunarlönd sem eru smáeyríki og þau sem skemmst eru á veg komin hlotið efnahagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda, meðal annars með því að ástunda sjálfbæra stjórn fiskveiða, sjálfbært fiskeldi í sjó og sjálfbæra ferðaþjónustu. 

14.a Vísindaleg þekking verði aukin og vísindarannsóknir þróaðar ásamt tækniþekkingu í haffræðum, að teknu tilliti til viðmiðunarreglna Alþjóðahaffræðinefndarinnar um hvernig nýta má þekkingu í sjávarútvegi til framþróunar í þróunarlöndunum, einkum þeim sem eru smáeyríki og þeim sem eru skemmst á veg komin, í því skyni að vernda hafið og líffræðilega fjölbreytni þess. 

14.b Veita þeim sem veiða í smáum stíl aðgang að sjávarauðlindum og mörkuðum. 

14.c Vernda og efla sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess með því að framfylgja alþjóðalögum, sbr. ákvæði þar að lútandi í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um varðveislu og sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess og nefnt er í 158. gr. í skýrslunni „The future we want“.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Sjálfbærar fiskveiðar
Súrnun sjávar og áhrif á lífríki í hafi
Að sporna við frekari mengun sjávar, ekki síst af völdum plasts

Verndun hafsins er eitt mikilvægasta verkefni mannkyns nú á dögum. Tryggja þarf að mannkynið geti áfram notið auðlinda hafsins og hafið gegni áfram margþættu hlutverki sínu meðal annars því sem það hefur í vistkerfi jarðar. Koma þarf í veg fyrir að mengun, ofveiði og hugsanleg áhrif loftlagsbreytinga ógni lífríki sjávar. Heilbrigt vistkerfi sjávar er og verður mikilvægt fyrir íslenskan efnahag og mikilvæg uppspretta fæðu fyrir hundruð milljónir manna í heiminum. Það er yfirlýstur vilji stjórnvalda að vinna með atvinnulífinu að vernd hafsins og sjálfbærri nýtingu auðlinda þess með samhentum aðgerðum. Heimsmarkmiðin setja ákveðinn ramma utan um þá vinnu bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Í þróunarsamstarfi leggur Ísland ríka áhersla á  sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins enda eru málefni hafsins í forgangi í íslenskri utanríkisstefnu.

Umhverfisvernd og loftslagsmál

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að halda hafinu hreinu svo og að lágmarka mengun frá landi auk mengunar sem hingað berst að utan. Í hafinu umhverfis Ísland er styrkur þungmálma, þrávirkra lífrænna efna og fleiri mengunarefna í hafinu og sjávarfangi mun lægri en á öðrum hafsvæðum í Evrópu og langt frá að nálgast viðmiðunarmörk hvað varðar heilsu manna og vistkerfi.  Styrkur sumra mengunarefna fer minnkandi  í hafinu umhverfis Íslands en vaxandi áhyggjur eru af mengun vegna rusls í hafi, ekki síst plasts. 

Stjórnvöld hafa sett sér forvarnastefnu varðandi úrgang, „Saman gegn sóun“, og er þar sérstök áhersla á að draga úr magni plastúrgangs og auka endurvinnsluhlutfall hans. Enn fremur er í vinnslu aðgerðaáætlun stjórnvalda sem er ætlað að draga úr plastnotkun og fjallar einn hluti þeirrar aðgerðaáætlunar sérstaklega um plast í hafi. Í gildi er samkomulag milli Úrvinnslusjóðs og útvegsmanna um endurvinnslu veiðarfæra og hefur það skilað góðum árangri en magn veiðarfæraúrgangs er um 1.100 tonn á ári.  Í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 er mikil áhersla á rannsóknir á umfangi plastmengunar í hafi og vitundarvakningu um hana. 

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun koldíoxíðs í samræmi við Parísarsamkomulagið. Sýrustig hafs lækkar af völdum upptöku koldíoxíðs úr andrúmsloftinu og óttast er að í framtíðinni muni lækkunin hafa skaðleg áhrif á lífríki hafsins, svo sem á kalkþörunga, skeldýr og kóralla. Hafrannsóknastofnun rannsakar og vaktar súrnun sjávar en vöktunin á sér langa sögu á heimsvísu og hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er unnið að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum 2018-2030.

Vernd haf- og strandsvæða

Ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um vernd og nýtingu lifandi auðlinda sjávar og stranda og verndun vistkerfisins eru byggðar á vísindalegri ráðgjöf. Ísland hefur tilkynnt 14 verndarsvæði í hafi innan efnahagslögsögu Íslands í gagnagrunn OSPAR samningsins. Fjölmörg önnur svæði eru lokuð í því skyni að vernda lífríki hafsins, ekki síst smáfisk. Sum svæðanna eru lokuð tímabundið, en önnur hafa verið lokuð í áratugi. Á flestum þessara svæða er bann við notkun einnar eða fleiri tegundar veiðarfæra. Stjórnvöld leggja áherslu á að ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan landhelgi Íslands en kortlagningin er grunnur vísindaráðgjafar um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotninum. 

Sjálfbærar veiðar

Stefna stjórnvalda í fiskveiðistjórn er að lifandi auðlindir hafsins séu nýttar á sjálfbæran hátt. Markmið um að koma í veg fyrir ofveiði og ólöglegar veiðar er vel á veg komið.  Á Íslandi hefur verið byggt upp fiskveiðistjórnarkerfi sem stuðla á að ábyrgum fiskveiðum á sjálfbærum grunni og góðri umgengni um vistkerfi hafsins og byggir á víðtækum rannsóknum á fiskstofnum og vistkerfinu. Ákvarðanir um veiðar og heildarafla eru teknar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og öflugt eftirlit er með fiskveiðum og skráningu afla. Íslenskur sjávarútvegur nýtur engra ríkisstyrkja, en þeir ýta undir ofveiði og offjárfestingu í fiskiskipaflota.

Á alþjóðlegum vettvangi 

Í þróunarsamvinnu byggist stefna íslenskra stjórnvalda á því að nýta íslenska þekkingu við að leysa alþjóðleg og staðbundin viðfangsefni, svo sem á sviði fiskimála. Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað á Íslandi síðan 1998 með það að markmiði að efla sérþekkingu sérfræðinga í þróunarríkjum á sjávarútvegi og fiskveiðum. Þannig leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum og vinnslu afurða í viðkomandi löndum. 

Ísland fjármagnar stöðu sérfræðings á sviði fiskimála hjá Alþjóðabankanum með aðsetur í Accra í Ghana. Í samstarfi við Alþjóðabankann kemur Ísland að verkefnum á sviði fiskimála í Líberíu og Síerra Léone sem hafa Heimsmarkmið 14 sem yfirmarkmið og snúa að hreinsun strandsvæða og auknu hreinlæti á löndunarstöðum afla. Þá er Ísland í samstarfi við Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) um verkefni sem snýr að því að styrkja og innleiða samning FAO um hafnríkiseftirlit (Port State Measures Agreement) hjá smáeyríkjum (Small Island Developing States) í karabíska hafinu og löndum í Vestur Afríku en markmið þessa samnings er að koma í veg fyrir landanir á ólögmætum sjávarafla.

Ísland er einnig stofnaðili ProBlue sjóðs Alþjóðabankans er varðar málefni hafsins og bláa hagkerfið og leggur þar áherslu á sjálfbæra fiskveiðistjórnun og aðgerðir gegn plastmengun í hafi. Ísland styður einnig átak Umhverfisstofnunar SÞ gegn plastmengun í sjó. 

Ísland hýsir skrifstofu vinnuhóps Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) um málefni hafsins (PAME) sem er staðsett á Akureyri. Þá hefur Ísland verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi um málefni hafsins, hafréttarmál og fiskveiðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, FAO og innan svæðisbundinnar fiskveiðistjórnar, meðal annars á vettvangi Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Ísland tekur virkan þátt í viðræðum ríkja á vettvangi WTO í Genf um heimsmarkmið 14.6 sem miðar að því að banna eða takmarka ríkisstyrki í sjávarútvegi. Ísland gegndi formennsku á aðildarríkjafundi Hafréttarsamningsins árið 2017 og tók virkan þátt í hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í júní sama ár til stuðnings framkvæmdar á heimsmarkmiði 14. Á ráðstefnunni stýrði sjávarútvegsráðherra Íslands viðræðum um hafrannsóknir og miðlun tækniþekkingar um hafrannsóknir. Þá tekur Ísland virkan þátt á fjölþjóðlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um að gera samnings um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (BBNJ).

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira