17. Samvinna um markmiðin

Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða

Undirmarkmið:

Fjármál

17.1 Úrræði heimamanna verði styrkt, meðal annars með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, til að bæta skattkerfið og aðra tekjuöflun. 

17.2 Hátekjuríkin standi að fullu við skuldbindingar sínar um opinbera þróunaraðstoð, meðal annars þá skuldbindingu margra þeirra að láta 0,7% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda og 0,15–0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þeirra sem eru skemmst á veg komin. Þau ríki sem veita opinbera þróunaraðstoð verði hvött til þess að setja sér það markmið að láta a.m.k. 0,20% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda sem eru skemmst á veg komin

17.3 Kallað verði eftir viðbótarfjármagni hvaðanæva að til handa þróunarlöndum.

17.4 Þróunarlönd fái aðstoð til að ná tökum á langtímaskuldum með samræmdri stefnumörkun sem miðar að því að bæta fjármagnsstöðu, lækka skuldir og endurfjármagna eftir því sem við á. Erlendar skuldir mjög skuldsettra og fátækra ríkja verði skoðaðar með það fyrir augum að draga úr skuldavanda. 

17.5 Teknar verði upp aðgerðaáætlanir til að efla fjárfestingarsjóði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin og þeim framfylgt.  

Tækni

17.6 Eflt verði samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða ásamt þríhliða svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi um vísindi, tækni og nýsköpun og aðgengi að þessum sviðum auðveldað. Enn fremur verði þekkingu miðlað í meira mæli á jafnræðisgrundvelli, meðal annars með því að samræma betur fyrirliggjandi kerfi, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra skipulagseininga sem er ætlað að stuðla að tækniþróun.

17.7 Stuðlað verði að umhverfisvænni tækniþróun og flutningi, miðlun og dreifingu í þróunarlöndunum á hagstæðum kjörum, m.a. með ívilnunum og tilslökunum, eins og samkomulag næst um. 

17.8 Eigi síðar en í lok árs 2017 verði starfrækt tæknimiðstöð til uppbyggingar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin og stuðningur til sjálfshjálpar efldur, einkum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni.  

Uppbygging getu

17.9 Efldur verði alþjóðlegur stuðningur við þróunarlöndin til að ýta úr vör skilvirkri og hnitmiðaðri uppbyggingu með hliðsjón af landsáætlunum sem fela í sér sjálfbær þróunarmarkmið, þ.m.t. samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og þríhliða samstarf.

Viðskipti

17.10 Stuðlað verði að alþjóðlegu og opnu viðskiptakerfi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem byggist á réttlátu og marghliða regluverki með jafnræði að leiðarljósi, þar sem meðal annars verði stefnt að því að ljúka Doha-viðræðunum. 

17.11 Útflutningur þróunarlanda verði aukinn verulega, einkum með það fyrir augum að tvöfalda hlutdeild þeirra verst settu í útflutningi á heimsvísu, eigi síðar en árið 2020. 

17.12 Koma í framkvæmd, þegar færi gefst, tollfrjálsu og kvótalausu markaðsaðgengi til lengri tíma fyrir þróunarlönd sem eru skemmst á veg komin í samræmi við ákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, meðal annars með því að tryggja gagnsæi, lítið flækjustig og ívilnandi upprunareglur um innflutning frá þessum löndum.  

Kerfistengd málefni

Stefnumál og samhengi í stofnanalegu tilliti

17.13 Auka efnahagslegan stöðugleika um allan heim, meðal annars með samræmdri stefnumörkun. 

17.14 Bæta samræmda stefnu varðandi sjálfbæra þróun.

17.15 Virt verði svigrúm og vald hvers lands til að koma á og framfylgja stefnumálum um útrýmingu fátæktar og sjálfbæra þróun.  

Samstarf margra hagsmunaaðila

17.16 Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun verði aukið með stuðningi fjölda hagsmunaaðila, sem miðla af þekkingu sinni og sérfræðikunnáttu, veita tæknilegar úrlausnir og fjármagn, í því skyni að ná fram þróunarmarkmiðunum um sjálfbærni í öllum löndum, einkum þróunarlöndunum. 

17.17 Hvetja til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi. 

Gögn, eftirlit og ábyrgð

17.18 Eigi síðar en árið 2020 verði efldur stuðningur við þróunarlöndin, meðal annars við þau lönd sem eru skemmst á veg komin og þróunarlönd sem eru smáeyríki, til að auka svo um munar aðgengi að nýjustu vönduðu og áreiðanlegu upplýsingum, sundurliðuðum eftir tekjum, kyni, aldri, kynþætti, þjóðerni, innflytjendastöðu, fötlun, landfræðilegri stöðu og öðrum breytum sem eiga við í hverju landi. 

17.19 Eigi síðar en árið 2030 verði unnið út frá fyrirliggjandi verkefnum og mælikvarði þróaður í þágu sjálfbærrar þróunar, þ.e. til viðbótar við mælikvarða um verga landsframleiðslu, og stutt verði við uppbyggingu á sviði tölfræði í þróunarlöndunum.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR

Framlög Íslands til þróunarsamvinnu nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna
Auknar fjárfestingar einkaaðila sem stuðla að sjálfbærni

Heimsmarkmið 17 snýr að því að efla innlent og alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og er ákall til allra ríkja um að uppfylla skyldur sínar. Heimsmarkmiðin byggja meðal annars á því að fátækt sé ein stærsta áskorun mannkyns og að endir skuli bundinn á hana fyrir árið 2030. Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að leggja lóð á vogarskálar baráttu gegn fátækt í heiminum og uppfylla þannig pólitískar og siðferðislegar skyldur Íslendinga. Nauðsynlegt er að auka flæði fjármagns til þróunarlanda til þess að ná heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030. Aðrir þættir skipta einnig miklu máli, svo sem uppbygging getu og tækniþekkingar, viðskipti og kerfistengd málefni.

Fjármál

Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu, en framlög aðildarríkja Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) námu 0,31% af VÞT að meðaltali árið 2017. Opinber framlög Íslands til þróunarsamvinnu árið 2017 námu 0,29% af VÞT  sem er töluverð aukning frá 2015 þegar framlög námu 0,24% af VÞT . Þessa hækkun má að hluta til rekja til aukins kostnaðar við móttöku flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi. Ein veigamesta ábending jafningjarýni OECD-DAC sem framkvæmd var árið 2017 á þróunarsamvinnu Íslands var að Íslendingar ættu að auka framlög enda hafi þjóðin til þess allar forsendur. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur jafnframt fram að ríkisstjórnin stefni að því að auka framlög í 0,35% af VÞT árið 2022. 

Mikilvægt er að tryggja að fátækustu löndin njóti góðs af þróunaraðstoð en í þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á samvinnu við fátækar þjóðir þar sem lífskjör eru hvað lökust. Í fyrrnefndri jafningjarýni OECD-DAC á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands kom fram að rúm 40% af þróunaraðstoð Íslands árið 2015 fóru til mjög fátækra ríkja, sem er töluvert hærra hlutfall en meðaltal aðildarríkja DAC (28%). 

Þörfin fyrir fjármagn í þróunarlöndum fer langt fram úr getu opinberrar þróunaraðstoðar eins og áréttað var í niðurstöðum alþjóðaráðstefnu um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015. Því þykir ljóst að fjárfestingar einkaaðila sem stuðla að sjálfbærni, vinna gegn fátækt og hungri og stuðla að almennri velmegun eru nauðsynlegar til að ná heimsmarkmiðunum. Í þessu skyni styðja íslensk stjórnvöld við stofnanir sem meðal annars stuðla að fjárfestingum einkaaðila. Má þar nefna Alþjóðabankann sem hefur gríðarmikið umfang og leggur ríka áherslu á mikilvægi einkageirans í fjármögnun þróunar. Tvær undirstofnanir bankans, Alþjóðalánastofnunin (IFC) og Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (MIGA), sinna til dæmis einvörðungu samstarfi við einkageirann í formi fjárfestingaábyrgða, lána og fjármögnunar til að hvetja til fjárfestinga í þróunarlöndum og aukinna viðskipta við þróunarlönd.

Utanríkisráðuneytið leggur aukna áherslu á samstarf við atvinnulífið á vettvangi þróunarsamvinnu þar sem sérstök áhersla er lögð á að nýta íslenska sérþekkingu til að vinna gegn fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Árið 2018 var stofnaður nýr sjóður um samstarf við atvinnulífið í þágu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífs til þróunarsamvinnu með það að markmiði að stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í fátækum þróunarríkjum. Einnig er lögð áhersla á þá möguleika sem felast í samstarfi félagasamtaka við fyrirtæki um tiltekin verkefni.  

Utanríkisráðuneytið hefur einnig lagt áherslu á að íslensk sérþekking nýtist á vettvangi alþjóðastofnana. Í samstarfi við Alþjóðabankann hefur verið komið á fót ráðgjafalistum á sviði jarðhitamála og sjávarútvegs. Öll tæknileg aðstoð og lausnir sem veittar eru í þessu samhengi eru veittar á grundvelli beiðna, annað hvort frá samstarfsríkjum bankans eða bankanum sjálfum, sem tryggir að sérfræðiframlag Íslands nýtist í stærra samhengi og gildi aðstoðarinnar fyrir viðkomandi lönd. Með því að tengja sérfræðiþekkingu Íslands með þessum hætti við starf alþjóðastofnana nýtist reynsla fyrirtækja á alþjóðavettvangi og þannig skapast mikilvæg tengsl fyrir möguleg framtíðarverkefni. 

Nauðsynlegt er að þróunarlönd fái einnig aðstoð til að ná sjálfbærri skuldastöðu og stuðla að ábyrgri fjármálastjórnun, meðal annars með því að fella niður og endurskipuleggja skuldir. Í því skyni tekur Ísland þátt í skuldaniðurfellingu þróunarríkja innan Alþjóðabankans, annars vegar gegnum Alþjóðaframfarastofnunina (IDA) og hins vegar gegnum Átak um niðurfellingar á skuldum þróunarríkja (MDRI).

Tækni og uppbygging getu og færni

Stuðla þarf að þekkingarmiðlun og dreifingu umhverfisvænnar tækni til þróunarlanda. Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hefur Ísland stutt töluvert við þennan málaflokk. Með starfsemi skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stuðla íslensk stjórnvöld að yfirfærslu þekkingar til þróunarlanda og uppbyggingu á getu og færni á sviði jarðhita-, sjávarútvegs-, landgræðslu- og jafnréttismála. Uppbygging getu og færni er jafnframt kjarninn í öllu tvíhliða samstarfi þar sem stutt er við héraðsstjórnir til að veita íbúum grunnþjónustu á borð við menntun, heilbrigðisþjónustu, vatns- og salernisaðstöðu.

Íslensk stjórnvöld hafa sömuleiðis staðið fyrir samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku en verkefnið hefur miðað að því að aðstoða lönd við frumrannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita sé þar að finna. Jarðhitaverkefnið felur í sér miðlun umhverfisvænnar tækni og nýtingu sjálfbærra orkukosta. Sömuleiðis hefur Ísland stutt við stofnun svæðisbundinnar þjálfunarmiðstöðvar í Kenía fyrir jarðhitaþróun í Afríku, en Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi tekur þátt í þeirri vinnu.

Viðskipti

Viðskipti sem taka tillit til sjónarmiða sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar eru hvati fyrir farsæla efnahagsþróun. Í því samhengi er mikilvægt að efla viðskiptatengsl og auka fjárfestingar í þróunarlöndum. Nauðsynlegt er að minnka viðskiptahindranir fyrir þróunarlönd og auðvelda þeim að koma vörum á markað, en þar gegnir Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) lykilhlutverki. Ísland hefur lagt og leggur áherslu á að ljúka viðræðum í Doha-lotunni sem Ísland hefur tekið þátt í og stutt þetta markmið. Þá hefur Ísland beitt sér fyrir því að koma jafnréttismálum á dagskrá í umræðu um alþjóðaviðskipti innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Ísland skrifaði undir samning við Alþjóðaviðskiptamiðstöðina (ITC) í kjölfar athugunar á því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld geti veitt þróunarríkjum stuðning í tengslum við viðskiptamál. Stuðningurinn er að hluta eyrnamerktur verkefninu SheTrades sem snýst um efnahagslega valdeflingu kvenna og hefur það að markmiði að tengja konur og kvenfrumkvöðla í þróunarríkjum og á stríðshrjáðum svæðum við markaði. Lög um að greitt verði fyrir markaðsaðgangi vara sem framleiddar eru í löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun (LDC) voru samþykkt á Alþingi þann 8. júní 2018. 

Kerfistengd málefni

Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á samstarf og gagnkvæma ábyrgð á árangri. Í því samhengi er lykilatriði að tryggja góða stjórnarhætti og berjast gegn spillingu. Sem dæmi um eignarhald og gagnkvæma ábyrgð á árangri má nefna að í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er áhersla lögð á að styðja áætlanir samstarfsaðila, bæði héraðs- og landsstjórna. Mikilvægt er að heimamenn beri sjálfir ábyrgð á verkefnum og að eignarhald þeirra á aðgerðum sé skýrt. Á sama tíma er lögð áhersla á að fylgjast vel með árangri verkefna. Þau eru öll metin reglulega af sjálfstæðum aðilum á grundvelli alþjóðlegra viðmiða. Efla þarf samstarf á heimsvísu um sjálfbæra þróun og skiptir aðkoma borgarasamtaka á þeim vettvangi miklu máli. Utanríkisráðuneytið hefur um árabil veitt styrki til verkefna á vegum borgarasamtaka.

Samstarf margra aðila

Á Íslandi er samstarf um málefni tengd heimsmarkmiðunum áberandi hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og í samstarfi við félagasamtök og borgarana. Sem dæmi má nefna verkefni á sviði félagslegra mála á borð við mannúðaraðstoð félagasamtaka í samstarfi við ríki, sveitarfélög og fyrirtæki. Eins er dæmi um víðtækt samstarf vegna heilsueflandi samfélaga, skóla og vinnustaða. Sömuleiðis má nefna samstarfsverkefni á sviði umhverfismála, svo sem á vettvangi loftslagsráðs og vegna innleiðingar á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. 

Ein leið fyrir samráð af hálfu stjórnvalda er rafræn samráðsgátt sem var opnuð árið 2018 til að auka möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila.  Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning og er öllum frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu. Til viðbótar koma annars konar samráðsferlar, svo sem þátttaka helstu hagsmunaaðila í nefndarstarfi stjórnvalda eða sérstakt boð til þeirra um umsögn.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira