2. Ekkert hungur

Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði

Undirmarkmið:

2.1 Eigi síðar en árið 2030 hafi hungri verið útrýmt og aðgengi allra tryggt, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, þar á meðal ungbarna, að nægum, öruggum og næringarríkum mat allt árið um kring. 

2.2 Eigi síðar en árið 2030 heyri vannæring í hvaða mynd sem er sögunni til, þar að auki verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stemma stigu við kyrkingi í vexti og tæringu barna undir fimm ára aldri, og hugað að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra. 

2.3 Eigi síðar en árið 2030 verði framleiðni og tekjur þeirra sem framleiða í litlu magni tvöfölduð, einkum kvenna, frumbyggja, bændafjölskyldna, hirðingja og sjómanna, til að mynda með öruggu og jöfnu aðgengi að landi, öðrum frjósömum auðlindum og aðföngum, þekkingu, fjármálaþjónustu, mörkuðum og tækifærum til virðisauka og starfa utan býla.  

2.4 Eigi síðar en árið 2030 verði sjálfbærni í matvælaframleiðslu tryggð og teknir upp starfshættir sem auka framleiðni og framleiðslu í landbúnaði, sem viðheldur vistkerfunum, dregur úr hættu af völdum loftslagsbreytinga, veðurofsa, þurrka, flóða og annarra hamfara og bætir land og jarðveg til lengri tíma litið.  

2.5 Eigi síðar en árið 2020 verði staðinn vörður um erfðafræðilega fjölbreytni fræja, ræktaðra plantna, húsdýra og skyldra villtra tegunda, meðal annars með vel reknum fræ- og plöntustöðvum á alþjóðlegum vettvangi, á landsvísu eða svæðisbundið, auk þess sem tryggt verði aðgengi að jafnri og sanngjarnri skiptingu á þeim ávinningi sem hlýst af nýtingu erfðafræðilegra auðlinda og þekkingu sem hefur hlotist þar af, í samræmi við alþjóðlegar samþykktir. 

2.a Fjárfestingar verði auknar, meðal annars með aukinni alþjóðlegri samvinnu, í innviðum á svæðum utan þéttbýlis, landbúnaðarrannsóknum, tækniþróun og erfðagreiningu plantna og búpenings í því skyni að bæta landbúnaðarframleiðslu í þróunarlöndum, einkum þeim sem skemmst eru á veg komin. 

2.b Komið verði í veg fyrir hindranir á heimsmörkuðum með landbúnaðarafurðir, meðal annars með samhliða afnámi allra útflutningsstyrkja í landbúnaði og allra annarra ráðstafana tengdra útflutningi sem hafa sömu áhrif, að teknu tilliti til Doha-samningalotunnar.

2.c Samþykktar verði ráðstafanir til þess að tryggja eðlilega starfsemi matvörumarkaða og afleiddra viðskipta og séð verði til þess að markaðsupplýsingar verði aðgengilegar og berist í tæka tíð, meðal annars um matvælabirgðir, í því skyni að sporna við miklum verðsveiflum.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Sjálfbær þróun í fiskveiðum og landbúnaði
Lífræn og heilnæm framleiðsla
Tryggja framfærslu allra landsmanna

Ef rétt er að farið geta landbúnaður og sjávarútvegur séð öllum fyrir nægum og næringarríkum mat auk þess að skapa atvinnu og tekjur. Raunveruleikinn er hins vegar annar. Jarðvegur, ferskvatn, höfin, skógar og líffræðilegur fjölbreytileiki eiga, meðal annars vegna loftslagsbreytinga, á hættu að skaðast meira en þegar er orðið, með fyrirsjáanlega slæmum afleiðingum fyrir líf fólks og umhverfið. Loftslagsbreytingar hafa ennfremur ýtt undir vandann þar sem þær auka líkurnar bæði á flóðum og langvarandi þurrkum. Í mörgum þróunarríkjum á fólk sem býr í dreifbýli erfitt með að ná endum saman sem veldur því að margir flytja í borgir þar sem þeirra bíður oft atvinnuleysi og fátækt. Alþjóðlegir matvæla- og landbúnaðarmarkaðir þurfa að breytast verulega svo tryggja megi öllum næringarríka fæðu. Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hafa íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir því að draga úr fátækt og hungri, bæði í samstarfsríkjum sem og í gegnum fjölþjóðastofnanir.

Útrýming hungurs og bætt aðgengi að fæðu 

Á Íslandi er framboð næringarríkrar fæðu gott og enginn á að þurfa að búa við hungur. Hlutverk ríkis og sveitarfélaga er að sjá til þess að þeir sem ekki ná endum saman fái viðeigandi aðstoð. Mikilvægt er að ná til allra sem eru í slíkri stöðu í samræmi við markmið heimsmarkmiðanna um að skilja enga hópa eftir við innleiðingu þeirra.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Styrkja þarf sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.

Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að huga sérstaklega að börnum sem búa við fátækt og samspili bótakerfa og skattkerfis í barnabótakerfinu. Velferðarvaktin lét gera rannsókn á lífskjörum og fátækt barna á Íslandi 2004-2016.  Helstu niðurstöður eru að brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum sem mælast undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þurfi að huga að börnum öryrkja. Af einstökum þáttum reyndist staða á húsnæðismarkaði hafa veruleg áhrif á lífskjör barna og þá sérstaklega barna einstæðra foreldra og öryrkja. Í rannsókninni var notaður umbreyttur jafngildiskvarði OECD (modified OECD equivalence scale) sem er kvarðinn sem Eurostat notar.

Líkt og að framan greinir teljast 1,3 til 3% íbúa landsins í þeim hópi sem býr við sárafátækt, samkvæmt skilgreiningu Velferðarvaktarinnar. Það er sá hópur sem er hvað viðkvæmastur og fylgjast þarf með að grunnþörfum hans sé mætt, meðal annars hvað varðar næga og næringarríka fæðu. Sjá verður til þess að hungur og vannæring verði aldrei að vandamáli hér á landi sérstaklega meðal fátækra, aldraðra og öryrkja.

Sjálfbær matvælaframleiðsla

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð er áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu og matarferðaþjónustu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og að vernd búfjárstofna sé tryggð. Þær stefnur sem styðja við sjálfbæra þróun og fela í sér aðgerðir sem stuðla að heilbrigði íbúa eru lífhagkerfisstefna stjórnvalda, matvælastefna og innkaupastefna opinberra aðila á matvælum. 

Verkefnisstjórn á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hefur frá ágúst 2018 unnið að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Jafnframt verður sett á fót sérstök ráðherranefnd til að fjalla um stefnuna enda mun matvælaframleiðsla verða eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna í framtíðinni og varðar mótun stefnunnar málefnasvið fjölmargra ráðuneyta. Við mótun stefnunnar verði lögð áhersla á tengsl matvæla og lýðheilsu og samspil matvælaframleiðslu og loftslagsbreytinga. 

Ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að bæta hag sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verða innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita. Með þeim verður rudd braut fyrir bændur til að byggja upp nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum sviðum. Slíkir aðlögunarsamningar til búháttabreytinga verða tímabundnir og háðir skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun og búsetu viðkomandi jarðar og geta stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun. Ríkisstjórnin mun jafnframt ráðast í aðgerðir til að þróa lífhagkerfið enn frekar, grænar lausnir og aðferðir til að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu með hvötum og stuðningi sem miði meðal annars að kolefnisjöfnun greinarinnar. Efla þarf lífrænan landbúnað í þessu skyni og draga fram sérstöðu íslensks hráefnis sem ræktað er við sjálfbær skilyrði.

Á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Sérstaklega skal hugað að réttindum barna og að þau fái tækifæri til að dafna og þroska hæfileika sína. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Aðgangur að næringarríkri fæðu er lykilatriði en aðrir þættir eins og aðgengi að hreinu vatni og bættri salernisaðstöðu, bólusetningar og aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu hafa einnig mikil áhrif. Í Malaví, samstarfslandi Íslands, búa um 42% barna undir fimm ára aldri við varanlega vaxtarhömlun.  Þar í landi hafa íslensk stjórnvöld veitt fé í verkefni eins og öflun hreins vatns, byggingu spítala og máltíðir fyrir skólabörn.

Ísland styður meðal annars Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Báðar stofnanir sinna mikilvægum næringarverkefnum í þróunarlöndum og á mannúðarsvæðum. Stuðningur Íslands er í formi rammasamninga og samninga um útsenda íslenska sérfræðinga auk þess sem Ísland svarar neyðarköllum eftir bestu getu með neyðarframlögum. Ísland lagði mikla áherslu á stuðning við WFP og UNICEF í Sýrlandi og Jemen árið 2018 og mun leitast við að beina mannúðarframlögum áfram á stríðs- og átakasvæði árið 2019. Þá ber að nefna að þróunarsamvinna og annað alþjóðasamstarf Íslands á sviði landgræðslu og sjálfbærra fiskveiða miðar að því að auka fæðuöryggi í heiminum.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira