3. Heilsa og vellíðan

Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar

Undirmarkmið:

3.1 Eigi síðar en árið 2030 verði dauðsföll af völdum barnsburðar í heiminum komin niður fyrir 70 af hverjum 100.000 börnum sem fæðast á lífi.

3.2 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir nýburadauða og andlát barna undir fimm ára aldri, sem unnt er að afstýra, og stefnt að því að öll lönd nái tíðni nýburadauða niður í 12 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi og dánartíðni barna undir fimm ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi. 

3.3 Eigi síðar en árið 2030 verði búið að útrýma farsóttum á borð við alnæmi, berkla, malaríu og hitabeltissjúkdóma, sem ekki hefur verið sinnt, og barist verði gegn lifrarbólgu, vatnsbornum faraldri og öðrum smitsjúkdómum. 

3.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan. 

3.5 Efldar verði forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis. 

3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu. 

3.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilbrigðisþjónustu á sviði kynheilbrigðis, meðal annars fyrir þá sem ætla að stofna fjölskyldu, og fræðsla og upplýsingagjöf veitt því tengdu. Tryggt verði að kynheilbrigði verði fellt inn í landsáætlanir. 

3.8 Komið verði á heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð fjárhagslegri stöðu, aðgengi veitt að góðri og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að öruggum, virkum og nauðsynlegum lyfjum og bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir alla

3.9 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir, svo um munar, dauðsföll og veikindi af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar. 

3.a Rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir verði hvarvetna hrundið í framkvæmd, eftir því sem við á.  

3.b Stutt verði við rannsóknir og þróun bóluefna og lyfja gegn smitsjúkdómum og öðrum sjúkdómum sem herja einkum á fólk í þróunarlöndum, aðgengi verði veitt að nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum á viðráðanlegu verði samkvæmt Dohayfirlýsingunni um TRIPS-samninginn og lýðheilsu sem staðfestir rétt þróunarlanda til þess að nýta sér til fulls ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum í því skyni að vernda lýðheilsu og einkum og sér í lagi aðgengi allra að lyfjum. 

3.c Talsvert verði aukið við fjármagn til heilbrigðismála sem og til nýliðunar, þróunar og þjálfunar og til að halda í heilbrigðisstarfsfólk í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og þeim sem eru smáeyríki.  

3.d Öll lönd, einkum þróunarlönd, verði styrkt til að geta brugðist skjótt við og haft hemil á alvarlegri heilsuvá innan lands og á heimsvísu.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar 
Framboð og aðgengi að  úrræðum og þjónustu eftir landssvæðum 
Langvinnir sjúkdómar sem tengja má við lífsstíl
Framboð á nýjum lyfjum og ofnotkun sýklalyfja 
Útgjöld til heilbrigðismála 
Mönnun heilbrigðisþjónustu

Almenn góð heilsa og vellíðan eru mikilvægir þættir í viðleitninni til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar. Á undanförnum árum hafa stór skref verið stigin í því að bæta lífslíkur fólks, til dæmis með því að draga úr mæðra- og ungbarnadauða og koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Enn er þó verk að vinna til að tryggja heilsu og vellíðan stærri hóps mannkyns en nú nýtur þeirra gæða. Í nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu heilbrigðismála segir að heilbrigðari lífshættir, hærri tekjur og betri menntun, ásamt betri heilbrigðisþjónustu hafi stuðlað að aukinni meðalævilengd á síðustu áratugum.  Lífslíkur Íslendinga eru með því hæsta sem gerist í heiminum og um þrír af hverjum fjórum fullorðinna (74%) á Íslandi töldu sig við góða eða mjög góða heilsu árið 2017. 

Mæðra- og ungbarnadauði og aðgangur að heilsugæsluþjónustu á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis

Mæðradauði er sjaldgæfur á Íslandi og tíðni hans með því lægsta sem þekkist á alþjóðavísu.  Mæðraeftirlit og fæðingarþjónusta er eingöngu veitt af menntuðu heilbrigðisstarfsfólki og er allur kostnaður við eftirlit á meðgöngu og með móður og barni fyrst eftir fæðingu greiddur af hinu opinbera. Ungbarnadauði á Íslandi er með allra minnsta móti á heimsvísu og hefur dauðsföllum vegna slysa ungra barna fækkað á undanförnum árum með aukinni áherslu á slysavarnir barna.  Öflug ung- og smábarnavernd fer fram á heilsugæslustöðvum og hefur það markmið að styðja við heilsu og þroska barna frá fæðingu til sex ára aldurs.

Almenningur hefur góðan aðgang að getnaðarvörnum og upplýsingum og fræðslu um kynheilbrigði hjá heilsugæslu og kvensjúkdómalæknum. Brýnt er þó að huga enn betur að forvörnum og ráðgjöf um getnaðarvarnir sem komið geta í veg fyrir óráðgerða þungun. Sérlega þarf að huga að yngri konum og konum sem standa höllum fæti í samfélaginu. Fæðingartíðni meðal ungra mæðra hefur farið hratt lækkandi á undanförnum áratugum og var árið 2017 5,9 á hverjar 1000 konur í aldurshópnum 15-19 ára. Meðalaldur frumbyrja hefur farið hækkandi og er nú 27,8 ár. 

Útrýming farsótta og fækkun ótímabærra dauðsfalla

Á Íslandi hefur almennt tekist að halda smitsjúkdómum í lágmarki en sóttvarnalæknir vaktar stöðu smitsjúkdóma og bregst við með aðgerðum innan þeirra marka sem lög heimila. Sóttvarnalæknir heldur utanum upplýsingar um faraldsfræði smitsjúkdóma og sendir til Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) og til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á ópersónugreinanlegu formi. 

Á Íslandi hefur faraldsfræði kynsjúkdóma löngum verið áþekk faraldsfræði nálægra landa en á síðustu árum hefur orðið vart aukningar á sárasótt, HIV og lekanda hér á landi líkt og erlendis. Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á þá hópa sem eru í meira mæli útsettir fyrir smiti. Meðal aðgerða til að bregðast við þessari þróun er aukinn aðgangur að smokkum, aukinn aðgangur sprautusjúklinga að hreinum nálum og stofnun fagráðs um kynheilbrigði.  

Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin (IHR) varð bindandi alþjóðasamningur árið 2007 og tekur löggjöfin á Íslandi mið af henni. Gildissvið sóttvarnalaga var útvíkkað árið 2007 og nær nú yfir sjúkdóma sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill. Sóttvarnalög veita mikilvægan ramma um skjótar og áhrifaríkar aðgerðir gegn margs konar vá hér á landi en lagaramminn hérlendis um eiturefni og mengun er jafnframt ítarlegur og veitir góða vernd hvað varðar mengun og hættuleg efni. Framfylgd laganna er á höndum ýmissa stofnana hins opinbera, svo sem Umhverfisstofnunar, Neytendastofu, heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Vinnueftirlits ríkisins.

Árið 2017 var fjöldi ótímabærra dauðsfalla á Íslandi um 422 á hverja 100 þúsund íbúa landsins.  Unnið er að fyrirbyggjandi þáttum með heilsueflingu og forvarnastarfi til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. Unnið er heildstætt með helstu áhættu- og áhrifaþætti heilbrigðis svo sem með áfengis-, tóbaks- og vímuvörnum, ráðleggingum um næringu, hreyfingu, geðrækt og tannvernd ásamt ofbeldis- og slysavörnum. Skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini á sér langa sögu á Íslandi og er stöðugt unnið að því að auka þátttöku kvenna í skimunum. Þá er einnig áætlað að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Skimunarráð skilað í mars 2019 áliti sínu til landlæknis um staðsetningu, stjórnun og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum á Íslandi og er næsta verkefni ráðsins að endurskoða fyrirkomulag einstakra skimana.  

Fullnægjandi mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur reynst áskorun sem gæti haft áhrif á þróun greiningar og meðferðar sjúkdóma takist ekki að tryggja fullnægjandi mönnun með nauðsynlegu starfsfólki. Árið 2016 var samþykkt stefna í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára þar sem áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun.  Unnið er að framkvæmd stefnunnar og hefur verið settur verkefnisstjóri í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaáætlun til að draga úr sjálfsvígum á Íslandi.

Stjórnvöld taka einnig þátt í tveggja ára tilraunaverkefni um stofnun og rekstur þverfaglegs móttöku- og stuðningsúrræðis fyrir ungt fólk á aldrinum 12–25 ára sem mun veita einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Markmiðið er að bæta þjónustu við börn og ungmenni og tryggja að þau fái aðstoð sem fyrst. Þetta tilraunaverkefni er að undirlagi og í samvinnu við Bergið Headspace sem sækir fyrirmyndir til svipaðra úrræða í Ástralíu og Danmörku. Það verður jafnframt unnið í nánu samstarfi við skóla, heilsugæslu og aðra aðila í nærumhverfi barna. 

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegum lyfjum og bóluefni

Allir landsmenn hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og er sjúkrahúslega sjúklingum að kostnaðarlausu. Á undanförnum árum hefur reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa verið breytt til að draga úr kostnaði þeirra sem þurfa mikið á lyfjum og þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda og þak sett á greiðsluþátttöku landsmanna hvað þetta varðar. Almenn komugjöld á heilsugæslu eru lág og engin hjá börnum, öryrkjum og öldruðum. Skólahjúkrunarfræðingar starfa í öllum grunnskólum landsins.

Bólusetningar barna eru að fullu greiddar af hinu opinbera og eru bóluefni jafnframt aðgengileg öllum landsmönnum á viðráðanlegu verði. Tannlækningar barna að 18 ára aldri eru gjaldfrjálsar. Fullorðnir þurfa að standa straum af kostnaði sínum vegna tannlækninga, en hið opinbera tekur að hluta til þátt í tannlæknakostnaði hjá öldruðum og öryrkjum. Aðgengi að sálfræðiþjónustu hefur verið aukið í heilsugæslu en sálfræðiþjónusta hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum er aðeins niðurgreidd fyrir börn. Launafólk hefur þó aðgang að styrkgreiðslum frá stéttarfélögum til að mæta sálfræðikostnaði og tannlæknakostnaði. Sérstaklega þarf að huga að þörfum fatlaðs fólks fyrir almenna heilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu.

Ein af mikilvægum áskorunum heilbrigðiskerfisins er að sjá landsmönnum fyrir nægu framboði nauðsynlegra lyfja, tryggja gæði þeirra og örugga notkun. Sýklalyfjaofnæmi sem stafar af ofnotkun sýklalyfja er ein stærsta heilbrigðisógn sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Forvarnir og meðferð vegna vímuefnamisnotkunar og fækkun umferðarslysa

Á Íslandi er unnið heildstætt forvarnastarf með helstu áhættu- og áhrifaþætti heilbrigðis. Ísland fullgilti rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um tóbaksvarnir árið 2005 og hefur sett stefnu í forvörnum gegn áfengis- og vímuefnanotkun sem nær til lok árs 2020. Einkasala áfengis er á hendi ríkisins en samkvæmt gildandi lögum um áfengi er bannað að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Umtalsverður árangur hefur náðst í að draga úr notkun áfengis, ólöglegra vímuefna og tóbaks meðal ungmenna á Íslandi og er notkun þessara efna nú að meðaltali sú lægsta í Evrópu.  Þá er áfengisneysla á Íslandi undir meðaltali OECD ríkja, eða 7,5 lítrar af hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri árið 2015.  Góður aðgangur er að meðferðarúrræðum vegna misnotkunar fullorðinna á vímuefnum en þörf er á að styrkja úrræði fyrir fólk og ungmenni með fjölþættan vanda, það er geð- og vímuvanda eða þroska- og vímuvanda.

Banaslys í umferðinni hafa verið fá síðastliðinn áratug, eða að meðaltali um 15 á ári.  Því vegur hvert slys hlutfallslega mikið sem útskýrir miklar sveiflur á milli ára. Til að bregðast við því er fremur litið til meðaltals yfir hvert fimm ára tímabil í stað stakra ára. Þess má geta að vegna fjölgunar ferðamanna hefur eknum kílómetrum á íslenskum vegum aukist um 40% á fimm árum og hefur það áhrif á slysatíðni. 

Á hverju ári er unnið ötullega að umferðaröryggi á Íslandi með innleiðingu umferðaröryggisáætlunar en samkvæmt þeirri áætlun er fjármunum veitt í mikilvægar vegaframkvæmdir er lúta að umferðaröryggi, sérstöku hraða- og ölvunareftirliti lögreglu ásamt sérsniðinni fræðslu, kynningum og herferðum Samgöngustofu. 

Á alþjóðlegum vettvangi

Í þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á að bæta lífsskilyrði og auka tækifæri fólks með sterkari félagslegum innviðum, þar á meðal með bættu aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu. Unnið er að því markmiði með tvíhliða þróunarsamvinnu, framlögum til félagasamtaka og veitingu framlaga til fjölþjóðastofnana.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á lýðheilsu í Malaví til að draga úr mæðradauða og fjármögnuðu meðal annars byggingu biðskýla fyrir verðandi mæður í dreifbýli í Mangochi-héraði, auk þess sem byggð hefur verið ein héraðsfæðingardeild með biðskýli, ungbarnaeftirlits- og fjölskylduáætlunardeild við héraðssjúkrahúsið. Til viðbótar hefur tilvísunarkerfið verið bætt með ellefu nýjum sjúkraflutningabílum, þannig ef upp koma bráða- eða áhættufæðingar á fæðingardeildum úti í sveitunum er auðveldara að bregðast við í tæka tíð og koma konum til héraðssjúkrahússins. Nú hafa um 80% kvenna í héraðinu aðgang að fæðingarþjónustu með góðri aðstöðu fyrir mæður, nýbura og aðstandendur þeirra. Með samstilltu átaki hefur stjórnvöldum og samstarfsaðilum í Mangochi-héraði tekist að lækka tíðni mæðradauða um 37% síðastliðinn áratug.   

Í Malaví hefur stjórnvöldum og samstarfsaðilum jafnframt tekist að lækka tíðni barnadauða um 49% frá 2010 til 2015.  Íslensk stjórnvöld fjármagna margvíslegar aðgerðir heilbrigðisyfirvalda gegn ungbarna- og nýburadauða í Mangochi-héraði, þar á meðal styrkingu heilbrigðisþjónustu í mesta strjálbýlinu, sem veitt er af hartnær 600 heilsuliðum sem hafa fengið þjálfun á undanförnum árum.

Samkvæmt skýrslu UNICEF frá 2018 kemur fram að þrátt fyrir að Malaví sé eitt af fátækustu löndum heims hefur landið sýnt fram á töluverðan árangur er varðar nýbura- og ungbarnadauða. Er þessu þakkað auknu aðgengi að gæða heilbrigðisþjónustu fyrir verðandi mæður. Árið 2000 fæddi meira en helmingur kvenna í Malaví börn sín án aðstoðar þjálfaðra heilbrigðisstarfsmanna á borð við ljósmæður og lækna, en á árinu 2016 var hlutfall fæðingaraðstoðar komið upp í 90%. Þetta leiddi til þess að tíðni ungbarnadauða lækkaði úr 41 af hverjum 1000 fæðingum árið 2000 í 18 af hverjum 1000 fæðingum árið 2017.  Árið 2018 lagði Ísland þar að auki til mannúðarfjármuni til UNICEF í Sýrlandi og til sýrlenskra flóttamanna í nágrannaríkjum og til UNFPA í Jemen áramótin 2018-1019 til að draga úr ungbarna- og mæðradauða í viðkomandi löndum þar sem neyðin er mikil. 

Ísland styrkti UNFPA í Jemen um áramótin 2018-2019 sem meðal annars kostar keisaraskurði og aðra mikilvæga þjónustu sem dregur úr nýburadauða. Í febrúar 2018 undirritaði utanríkisráðherra samning við UNFPA um stuðning Íslands við verkefni stofnunarinnar í Sýrlandi en af árangri UNFPA í Sýrlandi má nefna að árið 2016 fengu tvær milljónir sýrlenskra kvenna aðgang að lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu í Sýrlandi, Egyptalandi, Írak, Jórdaníu og Tyrklandi. Ísland styður einnig UNICEF á sviði heilbrigðismála í Palestínu og kostaði meðal annars úttekt árið 2018 á verkefni sem Ísland studdi á árunum 2011-2015 um heimavitjun til ungbarna og sýndu niðurstöður hennar jákvæð áhrif verkefnisins á að draga úr mæðra- og ungbarnadauða. 

Í þróunarsamvinnu Íslands er einnig lögð rík áhersla á kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi. Árið 2017 þrefaldaði Ísland kjarnaframlag til Mannfjöldasjóðs SÞ (UNFPA) en hlutverk sjóðsins er að tryggja kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi í þróunarríkjum og styðja þau við stefnumótun og framkvæmd verkefna sem beinast að því að útrýma fátækt, að gera getnaðarvarnir aðgengilegar, fæðingar öruggar og draga úr HIV smiti. Mikilvægir þættir starfseminnar eru réttindi mæðra og barna til heilsuverndar, ungbarnavernd, dreifing getnaðarvarna og kynlífs- og fjölskyldufræðsla. Nýtt verkefni er í undirbúningi með heilbrigðisyfirvöldum í Mangochi-héraði og UNFPA þar sem unnið verður með fjölskylduáætlanir til að draga úr fjölda ótímabærra barneigna unglingsstúlkna, veittar fistúlu aðgerðir og opnaðar miðstöðvar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis.

Á alþjóðavettvangi er ennfremur lögð rík áhersla á mikilvægi forvarna, lækningar og meðferðar við taugasjúkdómum, sérstaklega mænuskaða. Sérstaklega hefur verið unnið að því að auka samstarf Norðurlandanna á þessu sviði í því augnamiði að auðvelda rannsóknir á sviðinu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa íslensk stjórnvöld vakið sérstaka athygli á málaflokknum í tengslum við umferðaröryggi og ósmitbæra sjúkdóma. 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira