4. Menntun fyrir alla

Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi

Undirmarkmið:

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. 

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.  

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði. 

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi. 

4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður. 

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.a Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir. 

4.b Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.c Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Efla læsi og tryggja framtíð íslenskrar tungu
Fjölga kennurum
Fjölga nemendum í verk- og tækninámi
Vinna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum
Menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku

Ákvæði í íslenskum lögum falla vel að heimsmarkmiðunum, svo sem um rétt allra til menntunar, gildi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag og tengsl almennrar menntunar, lýðræðis og mannréttinda, jafnréttis, menningar og sjálfbærni. Meginmarkmið stjórnvalda er að skapa umhverfi fyrir eflingu menntunar í landinu og veita öllum viðeigandi undirbúning og tækifæri til frekara náms eða starfa og virka þátttöku í samfélaginu. Kjarni íslenskrar menntastefnu á leik- og grunnskólastigi hverfist um grunnþættina: læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð, sjálfbærni og sköpun. 

Menntun fyrir alla

Mennta- og menningarmálaráðherra setti haustið 2018 af stað vinnu við mótun menntastefnu á Íslandi til 2030. Menntastefnan mun ávarpa og setja í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum og hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til hliðsjónar. Stefnan nær til allra skólastiga og til kennaramenntunar. Markmiðið er að fólk hafi aðgang að góðri menntun á öllum skólastigum sem mætir sem best þörfum einstaklinga, samfélags og atvinnulífs hverju sinni og Ísland búi að framúrskarandi menntakerfi þar sem kennarar gegna lykilhlutverki. Gert er ráð fyrir að stefnan liggi fyrir í heild sinni vorið 2020.   

Menntun leggur grunn að virkri þátttöku í lýðræðissamfélagi og í stefnu stjórnvalda er lögð sérstök áhersla á þátttöku og virkni ungs fólks. Ísland fer með formennsku í norrænu samstarfi árið 2019 og er ungt fólk ein af megináherslum formennskuáætlunar Íslands. Í tengslum við hana verða ýmsir viðburðir þar sem leitað verður eftir sjónarmiðum ungmenna til ýmissa þátta sem tengjast heimsmarkmiðunum. 

Jafnrétti til náms

Samkvæmt íslenskum lögum og aðalnámskrá er grunnskólum skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Skólaskylda er á aldrinum 6-16 ára og fræðsluskylda til 18 ára aldurs. Leikskólastigið er skilgreint sem fyrsta stig skólakerfisins og árið 2017 voru rúmlega 19 þúsund börn í íslenskum leikskólum sem flestir eru reknir af sveitarfélögum. Árið 2017 sóttu 97% þriggja til fimm ára barna leikskóla, 95% tveggja ára barna og 47% eins árs barna.  Áskorun hefur reynst að veita börnum leikskólavist að loknu fæðingarorlofi foreldra, eða frá eins árs aldri barna. 

Allir nemendur eiga rétt á námi við hæfi í grunnskólum, bæði bóklegu námi, verk- og listnámi og sveitarfélögum er skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Miðað er við að allir nemendur ljúki á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigi án aðgreiningar og endurgjalds. Nám á grunnskólastigi er ekki að öllu leyti endurgjaldslaust en heimildarákvæði er í lögum um gjaldtöku, svo sem vegna ritfanga, skólamáltíða og frístundastarfs. Mörg sveitarfélög hafa að undanförnu horfið frá slíkri gjaldtöku eða dregið mjög úr henni, meðal annars til þess að stuðla að meira jafnræði með nemendum. Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 45.195 haustið 2017 og höfðu þá aldrei verið fleiri. Nær allir 15 ára unglingar á Íslandi (99,5%) sóttu almenna grunnskóla. 

Framhaldsskólum er ætlað að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Skólunum er einnig ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Árið 2018 sóttu um 22 þúsund nemendur íslenska framhaldsskóla, skólasókn á framhaldsskólastigi er góð en um 95% 16 ára nemenda sóttu framhaldsskóla haustið 2017.  Brotthvarf er þó töluvert úr framhaldsskólum og hlutfall þeirra sem sækja starfsnám á framhaldsskólastigi lágt í alþjóðlegum samanburði. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2017 var hærra meðal karla (39%) en kvenna (24%).  Ef litið er á aldursbilið 18-24 ára eru aðeins fimm prósent íslenskra ungmenna hvorki í skóla né vinnu og er það lægsta hlutfall meðal ríkja OECD.  

Íslensk menntastefna felur í sér jafnrétti til náms og menntun án aðgreiningar í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi staðfesta að núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda styður markmið og áherslur skóla án aðgreiningar og samræmast alþjóðlegum sáttmálum og samningum sem Ísland hefur undirgengist. Fram kemur að hlutfallslega færri nemendur eru í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast í Evrópu en formlegar greiningar á sérþörfum þeirra eru yfir meðallagi. Unnið er að því að hrinda úrbótatillögum úttektarinnar í framkvæmd og verður staða þess verkefnis endurmetin í árslok 2019. Mikilvægt er að finna leiðir til að tryggja fötluðu fólki almennt og sérstaklega fólki með þroskahömlun tækifæri til menntunar til jafns við aðra á öllum aldursskeiðum.

Skólasókn dreifist yfir lengra tímabil á Íslandi en almennt tíðkast í Evrópu og hátt hlutfall ungs fólks á aldrinum 25-29 ára er í námi. Ungt fólk notfærir sér í auknum mæli tækifæri í atvinnulífinu og frestar skólagöngu en snýr aftur eftir að hafa náð sér í starfsreynslu. Mikil sókn er í háskólanám á Íslandi og fjölgar háskólamenntuðum hratt. Í aldurshópnum 25-64 ára höfðu 21% Íslendinga lokið grunnnámi á háskólastigi árið 2017. Munur er þó á kynjunum því hlutfall háskólamenntaðra karla á aldrinum 25-34 ára á Íslandi hefur aukist um tíu prósentustig á tíu árum meðan hlutfall háskólamenntaðra kvenna hefur aukist um 20 prósentustig.  

Mikilvægi læsis

Læsi er lykill að öðru námi og er einn grunnþátta menntunar samkvæmt aðalnámskrá með áherslu á mikilvægi ritunar og lesturs. Niðurstöður PISA-könnunarinnar árið 2015 sýna að frammistaða íslenskra nemenda við lok grunnskóla er lakari en árið 2012. Megináskorunin er að snúa þeirri þróun við. Í Hvítbók um umbætur í menntun frá 2014 er eitt meginmarkmiðið að efla lestrarkunnáttu og lesskilning nemenda við lok grunnskóla svo að minnsta kosti 90% nemenda geti þá lesið sér til gagns. Nýlegar rannsóknir benda til þess að viðhorf til tungumálsins séu að breytast og að hæfni barna og ungmenna í íslensku, allt frá máltökualdri, fari versnandi.  Vilji stjórnvalda er að efla íslenska tungu og hlutverk hennar sem opinbers tungumáls. Þegar hafa verið stigin skref í þá veru með því að koma á sérstökum stuðningi við útgáfu bóka á íslensku og ráðgert er að fara í fjölþættar aðgerðir til þess að efla íslenskukennslu á öllum skólastigum. 

Fjölgun kennara

Miðað við núverandi stöðu er fyrirsjáanlegur kennaraskortur á Íslandi á öllum skólastigum og við því hefur verið brugðist í víðtæku samstarfi ríkis, sveitar- og stéttarfélaga. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við yfirvofandi kennaraskorti með því að kynna sértækar aðgerðir sem miða að því að fjölga nemendum í kennaranámi, stuðla að því að kennaranemar skili sér til starfa innan skólakerfisins og efla stuðning við nýliða í kennslu. Nýnemum í grunnnámi í leik- og grunnskólafræðum fækkaði um 40% á árunum 2008-2018 og nú er svo komið að aðeins um 28% stöðugilda í íslenskum leikskólum er mönnuð leikskólakennurum. Leiðbeinendum í grunnskólum hefur einnig fjölgað verulega á allra síðustu árum. Aðgerðir stjórnvalda fela meðal annars í sér að nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi býðst frá og með haustinu 2019 launað starfsnám og námsstyrkur. Þá er unnið að því að fjölga kennurum sem sérhæfðir eru í starfstengdri leiðsögn.  Þá er unnið að endurskoðun inntaks kennaramenntunar með þarfir kennaranema, skóla og samfélagsins alls í huga og að nýjum lögum um menntun og ráðningu kennara þar sem meðal annars er lögð áhersla á hæfni og sveigjanleika í starfi kennara á öllum skólastigum. Einnig er unnið að endurskoðun á stoðkerfi starfsþróunar kennara á öllum skólastigum.

Fjölgun í verk- og tæknigreinum

Staða og horfur starfsmenntunar á framhaldsskólastigi á Íslandi hefur lengi verið til umfjöllunar. Það er eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda að stuðla að því að fleiri nemendur velji starfs- og tækninám. Tækifæri til umbóta tengjast meðal annars aukinni samvinnu innan framhaldsskóla, framboði á fjar- og dreifnámi og samstarfi við grunnskóla og foreldra. Einnig er með breytingu á reiknilíkani framhaldsskóla, sem tekur að fullu gildi árið 2019, stuðlað að forgangsröðun í þágu verknáms.

Unnið gegn brotthvarfi

Tæp tuttugu prósent íslenskra ungmenna hverfa frá skólagöngu án þess að ljúka framhaldsskólanámi. Það er tvöfalt hærra brotthvarf en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Niðurstöður úttekta sýna að ástæður brotthvarfs geta, auk ónógs undirbúnings úr grunnskóla, verið lítil námsleg eða félagsleg skuldbinding, vantrú á eigin getu, andleg vanlíðan eða lítill stuðningur og hvatning foreldra og skortur á stuðningi innan framhaldsskóla. Unnið er að ýmsum aðgerðum til þess að fjölga þeim sem útskrifast úr framhaldsskólum, til dæmis með því að skima fyrir brotthvarfi og kortleggja ástæður þess og efla geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum. Þá er einnig unnið að því að auðvelda fullorðnum einstaklingum að afla sér viðurkenndrar menntunar eða starfsréttinda, það er þeim sem ekki hafa lokið formlegu námi eftir grunnskóla. Lagasetning um fullorðinsfræðslu er í endurskoðun með það að markmiði að setja skýran ramma um starfsemi menntastofnana og samstarf við atvinnulífið. 

Nemendur af erlendum uppruna

Nemendum af erlendum uppruna heldur áfram að fjölga í íslensku skólakerfi en þau eru nú um tíu prósent nemenda í grunnskólum.  Vísbendingar eru um að slíkum nemendum vegni verr en þeim sem hafa íslensku að móðurmáli, ekki síst þegar kemur á framhaldsskólastig þar sem þeim er hættara við brotthvarfi. Í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda 2016-2019 er lögð áhersla á jafna stöðu og tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin. Unnið er markvisst gegn brotthvarfi innflytjenda úr framhaldsskólum með stuðningi á öllum skólastigum, meðal annars með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli og stuðla að virku tvítyngi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur stofnað starfshóp til að greina stöðu slíkra nemenda og móta stefnu fyrir árslok 2019. 

Á alþjóðlegum vettvangi

Þrátt fyrir verulegar úrbætur alþjóðlega í aðgengi barna að grunnskólamenntun vantar töluvert upp á að alþjóðlegum þróunarmarkmiðum sé náð og gæði menntunar er víða ábótavant. Menntun er því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands. Áhersla er lögð á menntun barna ásamt uppbyggingu fagþekkingar innan áherslusviða Íslands, en um þessar mundir rekur Ísland meðal annars menntaverkefni í Malaví, Úganda og í Palestínu. 

Íslensk stjórnvöld styðja einnig við starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en fagfólk frá þróunarlöndum hefur þann möguleika að læra við skólana endurgjaldslaust. Skólarnir vinna að uppbyggingu fagþekkingar í þróunarlöndum í málefnum jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis og stuðla þannig jafnframt að framgangi annarra markmiða. Ísland tekur ennfremur þátt í ýmiss konar alþjóðlegri samvinnu á sviði kennaramenntunar. 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira