5. Jafnrétti kynjanna

Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld

Undirmarkmið:

5.1 Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar. 

5.2 Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þ.m.t. mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið.  

5.3 Allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og limlesting kynfæra kvenna og stúlkna, verði lagðir niður.

5.4 Ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan fjölskyldunnar, þ.m.t. á heimilinu, eins og við á í hverju landi. 

5.5 Tryggð verði virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi. 

5.6 Tryggð verði jöfn tækifæri og réttur allra til kynheilbrigðis, eins og samþykkt var með framkvæmdaáætlunum alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun og kvennaráðstefnunnar í Beijing sem og niðurstöðum skýrslna sem unnar voru í kjölfar ráðstefna þar sem staðan var endurskoðuð. 

5.a Gerðar verði umbætur til að tryggja konum jafnan rétt á sviði efnahagsmála, eignarhalds á og yfirráða yfir landi og öðrum eignum, jafnan rétt á arfi og jafnt aðgengi að fjármálaþjónustu og náttúruauðlindum í samræmi við landslög.  

5.b Notast verði við tækniaðferðir, einkum upplýsinga- og fjarskiptatækni, í því skyni að styrkja stöðu kvenna.

5.c Sett verði öflug stefna og raunhæf lög sem stuðla að kynjajafnrétti og styrkja stöðu kvenna og stúlkna á öllum sviðum.  

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval
Misvægi kynja í efstu lögum atvinnulífsins 
Draga markvisst úr kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi
Hækka hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof

Vægi jafnréttismála hefur aukist verulega á alþjóðavettvangi undanfarin ár og er litið til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar löggjöf og þróun málaflokksins á heimsvísu. Í nýjustu skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum), sem birt var í desember 2018, kemur fram að jafnrétti kynja er hvergi meira en á Íslandi miðað við aðferðafræði ráðsins. Ísland vermir fyrsta sæti listans, sem telur 144 lönd, tíunda árið í röð. 

Jafnrétti kynjanna er mikilvægt mannréttindamál og jafnframt forsenda friðar, framfara og þróunar. Lagalegt jafnrétti íslenskra kvenna er meira en víða annars staðar í heiminum, bæði þegar litið er til sögulegra áfanga í jafnréttisbaráttunni og með hliðsjón af mælikvörðum Alþjóðaefnahagsráðsins. Fyrstu íslensku heildarlögin um jafnan rétt og stöðu kynjanna voru sett árið 1976. Var þá mótuð opinber stefna í jafnréttismálum og Jafnréttisráð sett á stofn til að framfylgja lögunum. Nú að 40 árum liðnum er ljóst að kynferði virðist enn hefta frelsi einstaklinga og að gera þurfi betur á mörgum sviðum. Kynbundið ofbeldi er viðvarandi vandamál og nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld hverju sinni að leggja áherslu á verkefni sem hafa að markmiði að uppræta það. Kynbundið ofbeldi er lýðheilsuvandamál en afleiðingar þess fyrir hvert samfélag eru efnahagslegar, pólitískar, félags- og heilsufarslegar. 

Stefna og löggjöf sem stuðlar að auknu kynjajafnrétti

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög) hafa það að markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Efnisleg ákvæði laganna lúta bæði að samfélaginu utan og innan vinnumarkaðar, til dæmis hvað varðar bann við mismunun, launajafnrétti, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, kynferðislega áreitni, menntun og fleira. Jafnréttislög heimila til að mynda sértækar aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og kveða á um að tekið skuli tillit til meðgöngu og barnsburðar. Framangreindum lögum hefur verið breytt nokkrum sinnum á undanförnum árum til að stuðla að auknu kynjajafnrétti og draga úr mismunun. Þar má nefna jafnlaunavottun og bann við mismunun á grundvelli kyns í tengslum við vörukaup og þjónustu.

Gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019 tilgreinir brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði kynjajafnréttismála. Meðal verkefna er átak um samþættingu jafnréttissjónarmiða við ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnvalda og kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og valfrjálsa bókun hans. Í alþjóðlegum samanburði hefur íslenskur vinnumarkaður lengi haft þá sérstöðu að atvinnuþátttaka kvenna er mikil og mældist hún 78% árið 2018  en 85% meðal karlmanna. Síðastliðna áratugi hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist jafnt og þétt en um þriðjungur kvenna sinnir hlutastörfum á móti um 13% karla. 

Umræða um þátttöku karla í jafnréttismálum hefur orðið meira áberandi og í núgildandi framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum er sérstaklega fjallað um karla og jafnrétti. Þá hefur verið unnið að samþættingu jafnréttissjónarmiða í hinum ýmsu málaflokkum og kveðið er á um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í lögum um opinber fjármál.

Forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum

Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 2011 var fullgiltur af Íslands hálfu í apríl 2018. Samningurinn kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. Þá hefur dómsmálaráðherra samþykkt aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og ríkisstjórnin hefur veitt viðbótarfjármagni til innleiðingar aðgerða á grundvelli hennar, meðal annars til að fjölga stöðugildum hjá lögreglu og héraðssaksóknara, til að auka endurmenntun og til að bæta rannsóknarbúnað og verklagsreglur hjá lögreglu við meðferð kynferðisbrota. Hér þarf sérstaklega að líta til aðstæðna og þarfa hópa kvenna sem eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir ofbeldi af öllu tagi, s.s. fatlaðra kvenna og kvenna af erlendum uppruna.

Sameiginleg ábyrgð kynjanna á heimili og fjölskyldu

Meðal markmiða jafnréttislaga er að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og er hlutverk Jafnréttisráðs meðal annars að vera ráðherra og Jafnréttisstofu til ráðgjafar um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Einnig er í lögunum lögð sú skylda á atvinnurekendur að þeir geri nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Í því augnamiði leggja lögin áherslu á að ráðstafanir atvinnurekenda auki sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Lög um fæðingar- og foreldraorlof hafa að markmiði að tryggja barni samvistir við bæði föður og móður og einnig að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Allt frá setningu laganna árið 2000 hafa foreldrar almennt nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs. Frá árinu 2008 hefur hlutfall feðra sem nýtir ekki rétt sinn til fæðingarorlofs farið hækkandi hvort sem er um að ræða fullan rétt eða hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs.   

Rannsóknir hafa sýnt að hlutdeild íslenskra karla í heimilisstörfum hefur aukist og hefðbundin kynjaviðhorf virðast hafa hopað í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þeirrar staðreyndar að fleiri karlar taka fæðingarorlof og sinna ungum börnum sínum í kjölfar laganna árið 2000 þótt hlutfallið hafi lækka á milli ára síðustu ár.  

Full þátttaka kvenna á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála og á öðrum opinberum vettvangi

Í jafnréttislögum er kveðið á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% hlutur hvors kyns þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Jafnframt er kveðið á um að þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá framangreindu skilyrði þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu og skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Í lögum um hlutafélög er jafnframt kveðið á um sams konar fyrirkomulag fyrir skipan í stjórnir félaga með 50 starfsmenn eða fleiri.

Einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynjaskipting starfa. Konur og karlar gegna ólíkum störfum og er kynbundið námsval og kynjaskipting milli starfsgreina enn áberandi. Þá eru karlar mun oftar ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur, og karlar virðast enn búa við betri starfsþróunarmöguleika en konur.  Afleiðingarnar eru meðal annars vanmat á störfum kvenna en rekja má launamun og mun á lífeyrisréttindum kynjanna að miklu leyti til kynjaskiptingar á vinnumarkaði.    

Hlutfall kvenna á Alþingi hefur smám saman farið hækkandi síðastliðna áratugi þó að það sé sveiflukennt og var 38,1% árið 2018 en 47,6% árið 2016. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum árið 2018 varð 47,2% og hefur aldrei verið hærra.

Í byrjun árs 2019 voru konur 36% í stöðu framkvæmdastjóra sveitarfélaga og tæp 42% forstöðumanna ríkisstofnana.  

Jafnframt hefur menntun kvenna stórlega aukist og meira ber á konum í stjórnun atvinnulífsins en áður. Þá sýna rannsóknir að setning laga um fæðingar- og foreldraorlof hefur bætt stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hjá öðrum norrænum ríkjum hafa orðið sambærilegar breytingar í jafnréttismálum síðastliðna áratugi en mikið samráð er milli þeirra á þessu sviði. 

Forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) gerðu árið 2019 með sér samning um stuðning stjórnvalda við verkefnið Jafnvægisvogina. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að jafnari hlut kvenna og karla í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að  markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. FKA mun safna og samræma tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja í eigu einkaaðila og hins opinbera. Þá verður mælaborð Jafnvægisvogarinnar uppfært reglulega, fræðsla veitt um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum og kynningar haldnar á mælaborðinu og markmiðum verkefnisins fyrir fyrirtæki, stjórnvöld og almenning. 

Á alþjóðlegum vettvangi

Í íslenskri utanríkisstefnu er lögð mikil áhersla á kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna sem endurspeglast bæði í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og í málsvarastarfi á alþjóðavettvangi. Kynjajafnrétti er jafnan forgangsmál þegar Ísland gegnir formennsku í svæðisbundnu samstarfi, en á árinu 2019 hefur Ísland meðal annars tekið við formennsku í Norðurskautsráðinu, Norrænu ráðherranefndinni og kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum. Jafnréttismál eru helsta áhersla Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóða sem endurspeglast mjög vel í málflutningi okkar og málsvarastarfi. Virðing fyrir mannréttindum kvenna og bann við mismunun á grundvelli kynferðis er grunnstefið í málflutningi stjórnvalda, meðal annars hvað varðar kyn- og frjósemisréttindi, rétt kvenna til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í friðar- og öryggismálum, og mikilvægi þess að karlar beiti sér fyrir jafnrétti kynjanna, enda sé það lykillinn að sjálfbærri þróun og velsæld allra. 

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að verkefni og framlög, bæði í tvíhliða eða fjölþjóðlegri samvinnu, styðji við jafnrétti kynjanna og bæti stöðu stúlkna og kvenna. Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna er sett í öndvegi í nýrri þróunarsamvinnustefnu Íslands fyrir tímabilið 2019-2023 og er sett fram sem sérstakt markmið auk þess sem lögð verður frekari áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða í verkefni og framlög til þróunarsamvinnu.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að verkefni og framlög, bæði í tvíhliða eða fjölþjóðlegri samvinnu, styðji við jafnrétti kynjanna og bæti stöðu stúlkna og kvenna. Í tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum Íslands, Malaví og Úganda, og í áherslulöndunum, Mósambík, Palestínu og Afganistan, hafa kynjasjónarmið verið samþætt í verkefni á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, menntamála, vatns- og hreinlætismála og friðar- og öryggismála. Auk þess styðja íslensk stjórnvöld við bakið á UN Women, einni af áherslustofnunum Íslands í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu, sem sinnir samræmingarhlutverki jafnréttismála meðal stofnana Sameinuðu þjóðanna og vinnur að aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála. Stuðningur Íslands við Mannfjöldasjóð SÞ (UNFPA) styður jafnframt við valdeflingu kvenna og stúlkna en sjóðurinn vinnur út frá mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu með áherslu á kynjajafnrétti til að tryggja kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi.

Íslensk stjórnvöld styðja jafnframt við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem með þverfaglegum rannsóknum, kennslu og miðlun skal stuðla að kynjajafnrétti og félagslegu réttlæti í þróunarlöndum og á átakasvæðum. 

Frá árinu 2011 hefur Ísland notað aðferðafræði þróunarsamvinnunefndar OECD (OECD-DAC), svokallaða kynjajafnréttisstiku (e. Gender Equality Policy Marker), sem greinir framlög og verkefni með tilliti til þess hversu mikið þau stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í dag er Ísland þriðja efsta ríki á lista DACyfir hlutfall þróunarfjármagns sem rennur til jafnréttismála.  Tölur frá árunum 2016 til 2018 sýna að 80% íslenskra framlaga fór til verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna.   

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira