6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu

Undirmarkmið:

6.1 Eigi síðar en árið 2030 standi öllum til boða heilnæmt drykkjarvatn á viðráðanlegu verði hvar sem er í heiminum

6.2 Eigi síðar en árið 2030 hafi allir jafnan aðgang að fullnægjandi hreinlætisaðstöðu og enginn þurfi að ganga örna sinna utan dyra. Í þessu tilliti verði sérstaklega hugað að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.  

6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun og lágmarka losun hættulegra efna og efnablandna. Hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns verði minnkað um helming og endurvinnsla og örugg endurnýting aukin til muna um heim allan. 

6.4 Eigi síðar en árið 2030 verði vatn nýtt mun betur á öllum sviðum. Sjálfbær vatnsnotkun verði tryggð í því skyni að koma í veg fyrir vatnsskort. Jafnframt verði dregið verulega úr fjölda þeirra sem þjást af vatnsskorti. 

6.5 Eigi síðar en árið 2030 verði stjórnun vatnsauðlinda samþætt á öllum sviðum, meðal annars með samstarfi yfir landamæri eftir því sem við á. 

6.6 Eigi síðar en árið 2020 verði unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn.  

6.a Eigi síðar en árið 2030 nái alþjóðleg samvinna og stuðningur að efla starfsemi og áætlanir þróunarlanda sem tengjast vatni og hreinlætisaðgerðum, þ.m.t. vatnsöflun, afsöltun, vatnsnýtingu, hreinsun skólps og frárennslisvatns, endurvinnslu og tækni til endurnýtingar. 

6.b Stutt verði við byggðarlög til að bæta vatnsstjórnun og hreinlæti. 

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Hækka hlutfall skólps sem er hreinsað
Ljúka innleiðingu vatnatilskipunar ESB

Hreint og aðgengilegt vatn er ómissandi hluti af lífi jarðarbúa. Hreint vatn er nauðsynlegt til daglegra þarfa og einnig er úrkoma og aðgangur að vatni grundvöllur þess að landbúnaður og iðnaður geti þrifist. Vatnsöflun er víða áskorun, sérstaklega á þeim svæðum þar sem úrkoma er stopul og innviðir eru lélegir. Fyrirsjáanlegt er að vatnsþörf mun aukast á næstu áratugum vegna fjölgunar mannkyns, aukinnar neyslu og breytinga í neysluvenjum. Á sama tíma munu loftslagsbreytingar leiða til breytinga á úrkomumynstri, sem getur haft mikil áhrif á vatnsauðlindir einstakra ríkja. 

Á Íslandi er gnægð af fersku neysluvatni en landsmenn eru meðal auðugustu jarðarbúa af vatni.  Almennt er ástand neysluvatns gott, reglubundið eftirlit er haft með vatnsgæðum og strangar reglur gilda um vatnsból og nágrenni þeirra. Þörf er á að bæta fráveitur víða um land en flest þéttbýli landsins eru við sjávarsíðuna og er skólpi þar því veitt til sjávar. 

Aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu

Hægt er að fullyrða að allir á Íslandi hafi aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Heildarnýting á köldu vatni er um 280 milljón rúmmetrar á ári, sem samsvarar um 0,9% rúmmáls þess grunnvatns sem rennur til sjávar. 

Þótt Íslendingar búi við ofgnótt vatns er mikilvægt að  tryggja aðgengi að hreinu vatni með því að vernda það og vinna að sjálfbærri nýtingu þess. Lögum um stjórn vatnamála er ætlað að stuðla að þessum markmiðum og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Unnið er að gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar sem eru samþættar fyrir landið allt. Gert er ráð fyrir að þessar áætlanir komi til framkvæmda á árinu 2022. Þær taka til yfirborðsvatns og grunnvatns ásamt árósavatni og strandsjó, til vistkerfa þeirra og tengdra vistkerfa. Í reglugerðum um varnir gegn mengun vatns og um neysluvatn eru gerðar kröfur til neysluvatns svo og kröfur um vatnsvernd, starfsleyfi, eftirlit og rannsóknir. Reglugerðirnar eru settar annars vegar með það að markmiði að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint og hins vegar í því skyni að vernda vatnsból.

Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga er sveitarfélögum skylt að starfrækja vatnsveitu í þéttbýli í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja. Í reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga eru settar reglur um réttindi, skyldur og ábyrgð notenda annars vegar og þjónustu vatnsveitu við íbúa og atvinnulíf hins vegar. Í byggingarreglugerð og reglugerð um hollustuhætti eru ákvæði sem tryggja eiga viðunandi hreinlætisaðstöðu, salerni, handlaugar og baðaðstöðu. 

Vatnsgæði og skólphreinsun

Stærri vatnsveitur á Íslandi eru flestar í eigu sveitarfélaga en minni vatnsveitur í einkaeigu. Stærri vatnsveitur, fyrir fleiri en 500 íbúa, þjóna um 94% þjóðarinnar en sex prósent fá vatn frá minni vatnsveitum eða einstökum vatnsbólum. Örveruástand er í flestum tilvikum mjög gott hjá stærri vatnsveitum og sjaldgæft að óæskileg efni séu yfir leyfðu hámarksgildi. Örveruástand hefur reynst lakara hjá minni veitum, einkum þar sem erfitt er að nálgast grunnvatn. Um 74% íbúa landsins bjuggu við skólphreinsun árið 2014 en þar munar mest um skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu.  Mengun vegna skólps ógnar almennt ekki vatnsvernd þar sem fráveitur frá þéttbýli leiða flestar út í sjó en aukin skólphreinsun bætir ástand í fjörum og strandsjó. Uppbygging fráveitna er á ábyrgð sveitarfélaga.

Vatnsauðlindin og vistkerfi

Ekki er útlit fyrir vatnsskort á Íslandi. Ávinningur af betri nýtingu vatns er ef til vill einkum sá að halda stærð veitukerfa og fráveitubúnaðar innan hóflegra marka. Samtals er talið að um 42.000 hektarar votlendis hafi verið ræstir fram á Íslandi, en það samsvarar um 46% alls votlendis og um 90% votlendis á láglendi. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018–2030 eru áform um átak í endurheimt votlendis. Ávinningur af endurheimt eru meðal annars minni losun gróðurhúsalofttegunda, bætt vatnsmiðlun og fjölbreyttara fuglalíf.

Á alþjóðlegum vettvangi

Til margra ára hefur Ísland unnið að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu í þróunarlöndum. Í fjögurra ára verkefni sem hófst í Malaví árið 2017 verður til að mynda nær 1000 vatnspóstum komið á laggirnar sem áætlað er að bæti aðgengi nær 200 þúsund einstaklinga að hreinu vatni. Samhliða þessu er unnið með samfélögum í Mangochi héraði í Malaví að uppbyggingu hreinlætisaðstöðu. Í samstarfsskólum í Mangochi er einn verkefnaþátturinn að útbúa salernisaðstöðu fyrir nemendur og kennara.

Í Mósambík er unnið í samstarfi við UNICEF að því að bæta vatns- og hreinlætisaðstæður í Sambesíu-fylki, sem er eitt af fjölmennustu og fátækustu fylkjum landsins. Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi að heilnæmu drykkjarvatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu hjá markhópum í dreifbýli, smábæjum og þéttbýliskjörnum ásamt bættum hreinlætisvenjum fólks. Stefnt er að því að 150 þúsund manns fái viðunandi hreinlætisaðstöðu, 25 þúsund manns fái aðgengi að nýjum vatnsveitum og að nær sex þúsund nemendur í 15 skólum fái bætta vatns- og hreinlætissaðstöðu. 

Í Úganda hefur fræðsla um mikilvægi vatns, hreinlætis í skólum og orkusparandi eldunar í skólaeldhúsum farið fram í gegnum fjölbreytt menntaverkefni. Í Buikwe-héraði eru nú í byggingu vatnsveitur, fjármagnaðar af íslenskri þróunaraðstoð, sem munu veita íbúum í 39 fiskiþorpum héraðsins aðgang að hreinu vatni á viðráðanlegu verði. Um 18 til 20 þúsund nemendur í grunnskólum og 50 til 60 þúsund manns munu njóta góðs af þessum aðgerðum.

Ísland á einnig í samstarfi við UNICEF í Sierra Leone og Líberíu sem snýr að því að bæta aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu í sjávarþorpum landsins. Í samstarfi Íslands og UNICEF í Sierra Leone er unnið að vatnsveitu sem þjónustar 40 þúsund íbúa ásamt bættu aðgengi að hreinlætisaðstöðu og í Líberíu er unnið að því að tryggja 20 þúsund íbúum aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Samhliða uppbyggingunni er fólkið í sjávarþorpunum markvisst upplýst um mikilvægi hreins vatns og hreinlætis. Ísland veitir mannúðaraðstoð til Jemen í gegnum UNICEF um bætt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. Sömuleiðis er í Úganda nýhafið í samstarfi við UNICEF vatnsverkefni um uppbyggingarstarf sem beinist að flóttamönnum í Úganda frá Suður-Súdan og gistisamfélögum þeirra.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira