7. Sjálfbær orka

Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði

Undirmarkmið:

7.1 Eigi síðar en árið 2030 verði nútímaleg og áreiðanleg orkuþjónusta í boði alls staðar í heiminum á viðráðanlegu verði. 

7.2 Eigi síðar en árið 2030 hafi hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum heimsins aukist verulega.

7.3 Eigi síðar en árið 2030 verði orkunýting orðin helmingi betri. 

7.a Eigi síðar en árið 2030 verði alþjóðleg samvinna aukin í því skyni að auðvelda aðgengi að rannsóknum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku, meðal annars endurnýjanlegrar orku, orkunýtni og háþróaðs og hreins jarðefnaeldsneytis, og ýtt undir fjárfestingu í orkugrunnvirkjum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku. 

7.b Eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og tækni nýtt í því skyni að veita öllum í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin, smáeyríkjum og landluktum þróunarlöndum, nútímalega og sjálfbæra orkuþjónustu í samræmi við áætlanir hvers og eins í þeim efnum. 

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Tryggja orkuöryggi í landinu með því að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði
Auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa með orkuskiptum í lofti, láði og legi
Jafna orkukostnað vegna dreifingar raforku og húshitunar á landsvísu
Tryggja lágmarkskröfur um afhendingaröryggi raforku um land allt

Margar stórar áskoranir, auk tækifæra, sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag tengjast orkumálum. Lífsgæði, byggðafesta, samfélagslegt jafnræði og framþróun atvinnulífsins eru órjúfanlega tengd aðgengi að orku. Þess vegna er framboð hreinnar og sjálfbærrar orku mikilvæg öllum þjóðum til framtíðar. Staða Íslands í orkumálum er einstök þar sem langstærsti hluti þeirrar orku sem notuð er í landinu er endurnýjanleg, umhverfisvæn orka. Eina starfsemin á Íslandi sem enn er knúin jarðefnaeldsneyti og á eftir að undirgangast orkuskipti eru samgöngur á hafi, í lofti og á landi. Forgangsmál íslenskra stjórnvalda er að tryggja orkuöryggi og afhendingaröryggi raforku á landsvísu og stuðla að jöfnun orkukostnaðar milli landssvæða.

Hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku

Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi var næstum 73% árið 2016  og nánast öll raforka (99,9%) er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, það er vatnsafli, jarðhita og vindorku.  Jarðhiti og raforka eru nýtt til húshitunar í nær öllum byggingum á Íslandi (99%). Að þessu leyti sker Ísland sig úr á alþjóðavettvangi. Stjórnvöld hafa stutt við hitaveituvæðingu undanfarna áratugi með stofnstyrkjum til nýrra hitaveitna og styrkjum til jarðhitaleitar, og áhersla hefur verið lögð á að draga úr rafhitun húsnæðis. 

Samgöngur á landi og siglingar á hafinu eru enn að langmestu leyti knúnar jarðefnaeldsneyti. Stjórnvöld hafa beitt skattaívilnunum í því skyni að hvetja til kaupa á bifreiðum sem nýta endurnýjanlegt eldsneyti á borð við rafmagn, vetni, lífeldsneyti, metan og metanól. Einnig hafa stjórnvöld úthlutað styrkjum frá Orkusjóði til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Orkuskipti á föstu landi eru því komin vel á veg þar sem fjöldi vistvænna ökutækja eykst hratt um þessar mundir og tekist hefur að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rúm níu prósent fyrir árið 2018. Enn eru orkuskipti í skipaflota landsins skammt á veg komin enda hefur þróun og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum fyrir siglingar verið hæg. Vonir standa hins vegar til þess að skipaflotinn nýti í meira mæli þá endurnýjanlegu orkukosti sem standa nú til boða. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að svartolíubanni innan íslenskrar landhelgi. Í samanburði við önnur lönd er raf- og varmaorkan ódýr á Íslandi, en landsmenn greiða lægra hlutfall af sínum tekjum fyrir þessa orkugjafa en í öðrum Evrópuríkjum. 

Aðgengi að endurnýjanlegri orku

Til að ná markmiðum stjórnvalda um orkuöryggi þarf fyrst og fremst að setja heildstæða orkustefnu til lengri tíma. Slík orkustefna þarf að byggjast á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. 

Treysta þarf betur flutnings- og dreifikerfi raforku, tengja betur lykilsvæði, skoða að hve miklu leyti nýta megi jarðstrengi með hagkvæmum hætti og bæta málsmeðferð ákvarðana sem tengjast framkvæmdum í flutningskerfinu. Álag á flutningskerfi Landsnets og dreifiveitur hefur aukist jafnt og þétt, sem hefur leitt til vaxandi rekstraráhættu og minni tækifæra til nýrrar atvinnuuppbyggingar á landsvísu. Fyrirvaralausum rekstrartruflunum og straumleysismínútum hefur að sama skapi fjölgað. Í núverandi flutningskerfi raforku er orkuöryggi nokkuð mismunandi eftir landsvæðum og hefur afhendingaröryggi verið einna lakast á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þá hefur verið gert átak í að bæta aðgengi að þriggja fasa rafmagni í dreifbýli. 

Allir landsmenn hafa aðgengi að rafmagni í híbýlum sínum og verð til almennings er lágt í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega verð á orku til húshitunar. Jöfnun orkuverðs heimila hefur verið áherslumál stjórnvalda um langa hríð. Orkuverð heimila er hærra hjá þeim sem ekki hafa aðgang að jarðvarmaveitum til húshitunar eða búa á strjálbýlum svæðum þar sem dreifikostnaður rafmagns er hærri en í þéttbýli. Þessi verðmunur hefur verið brúaður að hluta til með niðurgreiðslum frá hinu opinbera. Ýmis sveitarfélög á köldum svæðum leita að heitu vatni til að nota til upphitunar en reynsla undanfarinna ára gefur ákveðið tilefni til bjartsýni um að hlutur jarðhita aukist á kostnað rafhitunar með tilheyrandi sparnaði.

Aukin orkunýtni

Vegna tækniframfara hefur árleg meðaltalsnotkun heimila á rafmagni lækkað úr 4,9 MWh árið 2009 niður í 4,37 MWh árið 2017. Þetta kemur fram í raforkuspá orkuspárnefndar sem áætlar að orkunotkun hvers heimilis muni minnka niður í 4 MWh á næstu árum. Sparneytnir ljósgjafar og heimilistæki eru helstu skýringar á minnkandi raforkunotkun á heimilum landsmanna. Á móti kemur að tækjum á heimilum hefur farið fjölgandi en flestar nýjar tækjategundir eru orkugrannar. Orkunotkun á hvern bandaríkjadal af landsframleiðslu er mikil hérlendis og skýrist það annars vegar af því háa hlutfalli orkuframleiðslu hérlendis sem fer til stóriðju (80%), og hins vegar af fámenni þjóðarinnar.  Hið opinbera hefur beitt sér fyrir aukinni orkunýtni, til dæmis með starfsemi Orkuseturs sem veitir almenningi ráðgjöf um orkusparnað.

Á alþjóðlegum vettvangi

Íslensk stjórnvöld eru framarlega á sviði jarðvarmanýtingar til upphitunar og raforkuframleiðslu. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem miðlar tækniþekkingu til fagfólks frá þróunarríkjum, er mikilvægur þáttur í alþjóðlegu samstarfi um sjálfbæra orku en Ísland veitir einnig framlög til ýmissa stofnana og sjóða sem með ýmsum hætti koma að orkuverkefnum í fátækari ríkjunum. Sem dæmi má nefna stuðning Íslands við orkusjóð Alþjóðabankans (ESMAP) en frá því sá stuðningur hófst hafa fjárfestingar Alþjóðabankans í jarðhita aukist talsvert. Í tengslum við samstarfið innan ESMAP veitir Ísland einnig stuðning í formi tæknilegrar ráðgjafar inn í jarðhitaverkefni Alþjóðabankans. Þá veitti Ísland eyrnamerkt framlag til ESMAP fyrir starf sem varðar nýtingu vatnsafls í þágu þróunarríkja en Ísland býr yfir víðtækri þekkingu á því sviði sem nýst getur víða um heim. Ísland á einnig í tvíhliða samstarfi á sviði endurnýjanlegrar orku við ríki í Austur-Afríku. Í krafti sérþekkingar og mikillar reynslu í nýtingu endurnýjanlegrar orku hefur Ísland þannig áhrif á alþjóðavettvangi, langt umfram stærð lands og þjóðar. Íslensk stjórnvöld veita jafnframt framlög til alþjóðlegra samtaka um sjálfbæra orku fyrir alla (SEforALL) og Alþjóðastofnun fyrir endurnýjanlega orku (IRENA), svo dæmi séu nefnd. 

Ísland hefur veitt samþættingu kynjasjónarmiða sérstaka athygli í umhverfis- og loftslagsmálum síðustu árin og leggur sig fram við að styðja við sértækar aðgerðir til að efla stöðu kvenna innan málaflokksins. Íslensk stjórnvöld hafa sérstaklega stutt við samstarfsvettvang SEforALL sem ætlað er að stuðla að kynjajafnrétti og leggur áherslu á samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum á heimsvísu. Landsvirkjun, Orkuveitan og Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hafa tekið þátt í myndun þessa vettvangs. Ísland styður jafnframt verkefni sem leitt er af skrifstofu UN Environment í Naíróbí í Kenía sem miðar að því að virkja afrískar konur og tengslanet þeirra sem vinna frumkvöðlastarf á sviði sjálfbærrar orku (e. Africa Women Energy Entrepreneur Framework).

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira