8. Góð atvinna og hagvöxtur

Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

Undirmarkmið:

8.1 Viðhaldið verði hagvexti á hvern einstakling í samræmi við aðstæður í hverju landi og að minnsta kosti 7% vexti vergrar landsframleiðslu á ári í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin. 

8.2 Aukinni framleiðni í atvinnulífinu verði náð með fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun, meðal annars með því að beina athygli að vinnuaflsfrekum geirum sem fela í sér mikinn virðisauka.  

8.3 Unnið verði að framgangi þróunarmiðaðra stefnumála sem styðja við afkastamikla framleiðslustarfsemi, frumkvöðlastarfsemi, sköpunarmátt og nýsköpun og fjölga mannsæmandi störfum. Lítil og meðalstór fyrirtæki fái meðbyr, meðal annars með aðgengi að fjármálaþjónustu. 

8.4 Fram til ársins 2030 verði nýting auðlinda til neyslu og framleiðslu bætt jafnt og þétt og leitast við að draga úr hagvexti sem gengur á náttúruna í samræmi við tíu ára rammaáætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, með hátekjuríkin í fararbroddi. 

8.5 Eigi síðar en árið 2030 verði full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir allar konur og karla, þar á meðal ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf. 

8.6 Eigi síðar en árið 2020 hafi hlutfall ungmenna, sem eru atvinnulaus, stunda ekki nám eða þjálfun, lækkað verulega. 

8.7 Gerðar verði tafarlausar og árangursmiðaðar ráðstafanir til þess að útrýma nauðungarvinnu. Nútímaþrælahald og mansal heyri sögunni til og tekið verði fyrir barnaþrælkun og hún bönnuð, þar á meðal herþjónusta barna, og eigi síðar en árið 2025 verði nauðungarvinna barna í allri sinni mynd úr sögunni. 

8.8 Réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandverkafólk, einkum konur í þeim hópi og þá sem eru í óöruggu starfi.

8.9 Eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur

8.10 Fjármálastofnanir innan lands verði efldar til þess að bæta aðgengi að banka-, trygginga- og fjármálaþjónustu fyrir alla.  

8.a Þróunaraðstoð í viðskiptum verði aukin, einkum í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin, meðal annars á grundvelli sameiginlegrar tæknilegrar aðstoðar í viðskiptum. 

8.b Eigi síðar en árið 2020 verði heildarstefnu um atvinnumál ungmenna hrundið í framkvæmd og atvinnusáttmáli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kominn til framkvæmda.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Draga úr langtímaatvinnuleysi
Efla stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu
Aukin framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag
Jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu 

Víða í heiminum er það að hafa trygga atvinnu ekki nóg til þess að komast hjá fátækt. Sjálfbær hagvöxtur er því háður að samfélög heimsins skapi aðstæður þar sem fólk getur unnið störf á mannsæmandi launum, sem skaða þó ekki umhverfið. Einnig þurfa ríki heims að sjá vinnuafli sínu fyrir starfsmöguleikum og viðeigandi vinnuskilyrðum. Hagvöxtur er mælikvarði fyrir heilbrigði hagkerfis og þykir mikilvægur fyrir framþróun ríkja. Á Íslandi hefur verið hagvöxtur undanfarin átta ár en fyrstu tvö árin eftir hrun (2009-10) var samdráttur í hagkerfinu.  Atvinnuleysi á Íslandi jókst umtalsvert árið 2009 eftir hrun en hefur minnkað jafnt og þétt síðan. Þó má nú sjá aukningu í atvinnuleysi á milli ára, skráð atvinnuleysi í mars 2019 var 3,2% en 2,4% árið 2018. 

Hagvöxtur, atvinnugreinar og sjálfbærni

Tryggja þarf að þróttmikill efnahagur á Íslandi gagnist öllum þjóðfélagsþegnum. Til þess er mikilvægt að hagvöxtur auki hagsæld allra landsmanna og að það speglist í stefnumörkun í opinberum fjármálum. Það felst meðal annars í gerð fjármálastefnu ríkisstjórnar og fjármálaáætlunar og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Stefnumörkunin byggist á fimm grunngildum: sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Framleiðni er lykilhugtak í áætlun stjórnvalda eins og fram kemur í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Lögð er áhersla á nýsköpun og aukna framleiðni í öllum atvinnugreinum. Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um að fjárfestingar í rannsóknum og þróun verði þrjú prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024. Hér á landi hefur aukinni framleiðni í atvinnulífinu verið náð með aukinni fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun. Ísland hefur ekki farið varhluta af litlum framleiðnivexti í hinum vestræna heimi frá árinu 2008 en framleiðnin hefur vaxið kröftuglega síðustu ár og samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að vöxturinn haldi áfram til næstu ára. 

Stefna Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum er að auka enn frekar nýtingu aðfanga með sjálfbærum hætti en Ísland er mjög framarlega í þessum málaflokki. Sjálfbærni er megininntak í nýtingu íslenskra náttúruauðlinda þannig að hagnýting leiði ekki til hnignunar þeirra. Þar af leiðandi er hagvöxtur nú þegar frátengdur hnignun auðlindanna. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar er lögð áhersla á orkusparnað og orkuskipti sem eiga að vinna að því að bæta kolefnisfótspor ferðaþjónustu og bæta umgengni um landið. Að auki hafa verið skilgreindir álagsvísar sem munu nýtast við gerð álagsmats á umhverfi, innviði og samfélag gagnvart fjölda ferðamanna á landinu. Unnið er að mótun stefnu fyrir ferðaþjónustuna til 2030 með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Atvinnuþátttaka

Almenn þátttaka á vinnumarkaði er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Mikilvægt er því að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði án tillits til fötlunar eða skertrar starfsgetu en virkni í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði, er einnig liður í auknum lífsgæðum. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er því lögð áhersla á að koma í veg fyrir langvarandi fjarveru einstaklinga frá vinnumarkaði og draga með því úr hættu á viðvarandi óvirkni þeirra og hugsanlegri örorku. Í þessu felst að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi einstaklinga án tillits til þjóðernis, menntunar eða aldurs. Gert er ráð fyrir öflugri ráðgjöf Vinnumálastofnunar þannig að fólk verði komið með starf við hæfi, í nám eða með starfsþjálfunarsamning áður en það hefur fullnýtt bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Áhersla er lögð á að efla þjónustu við atvinnuleitendur með fötlun, þá sem hafa skerta starfsgetu eða standa höllum fæti. Atvinnuþátttaka fatlaðs fólks er almennt minni en annarra og hefur fötluðu fólki reynst erfiðara en öðrum að fá störf. Það er stefna stjórnvalda að sem flestir geti verið virkir á vinnumarkaði og því er mikilvægt að bjóða upp á virk vinnumarkaðsúrræði til að auðvelda fólki með skerta starfsgetu, þar á meðal fötluðu fólki, aðgengi að vinnumarkaðnum. Það er jafnframt stefna íslenskra stjórnvalda að hér á landi skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni og hefur jafnlaunavottun verið leidd í lög. 

Viðkvæmir hópar

Ísland hefur fullgilt samþykktir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) er varða lágmarksaldur við vinnu, samþykkt um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana, samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu og samþykkt um afnám nauðungarvinnu. Einnig hefur Ísland fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í mars 2019 voru birtar áherslur íslenskra stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu, en þar er gert ráð fyrir að barnaverndaryfirvöld móti skilvirkt og skýrt verklag við greiningu á börnum, sem grunur leikur á að gætu verið þolendur mansals og að útbúnar verði leiðbeiningar og verklagsreglur fyrir fagfólk, sem starfar með börnum, þegar grunur leikur á að barn sé þolandi mansals.  Þá hefur Ísland fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks þar sem er lögð mikil áhersla á að tryggja fötluðu fólki tækifæri á vinnumarkaði til jafns við aðra og skyldu ríkja til að grípa til viðeigandi ráðstafana í því skyni.

Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu. Áhersla er lögð á að vinnustaðir geri áhættumat og áætlun um heilsu og öryggi innan þeirra en í því sambandi eru forvarnir á vinnustöðum afar mikilvægar. Enn fremur er lögð áhersla á að tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé unnt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur. Á Íslandi eru starfrækt öflug stéttarfélög sem gæta hagsmuna félagsmanna sinna hvað varðar réttindi á vinnumarkaði en mikill meirihluti launafólks á innlendum vinnumarkaði eru félagsmenn í stéttarfélögum.  Samkvæmt greinargerð frá Hagstofu Íslands voru innflytjendur að jafnaði með tæplega átta prósent lægri laun en innlendir á árunum 2008-2017 að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starfstengdra þátta.  Með því að leiðrétta fyrir þessum þáttum fæst skýrari mynd af þeim sértæku áhrifum sem bakgrunnur hefur á laun. 

Fjórða iðnbyltingin og áhrif á vinnumarkaðinn

Umræða um fjórðu iðnbyltinguna hefur magnast víða um heiminn undanfarin ár. Ríki eru að reyna að skilja eðli og umfang hraðfara tæknibreytinga og meta jákvæð og neikvæð áhrif þeirra og hvernig megi stýra þeim til hagsbóta fyrir samfélög heimsins. Íslensk stjórnvöld eru meðvituð um þá þróun sem er að eiga sér stað og hefur forsætisráðherra meðal annars skipað framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga sem skipuð er alþingismönnum. Vísinda- og tækniráð hefur verið að skoða meiriháttar samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir auk þess sem forsætisráðherra lét vinna skýrslu um tækifæri og áskoranir Íslands vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.

Fram kemur í skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna að verulegar breytingar á vinnumarkaði eru í vændum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu verða sum störf óþörf en jafnframt verða til ný störf.  Möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar á Íslandi voru skoðuð á grundvelli aðferðafræði OECD. Þær niðurstöður sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta eru um 54.000 einstaklingar á vinnumarkaði miðað við árið 2017 og svipar þessu hlutfalli til áætlaðra áhrifa tækniframfara annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er því spáð að 58% starfa (rúmlega 113.000 einstaklingar) taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa (tæplega 27.000 einstaklingar) breytist lítið. Út frá þessari spá er líka hægt að sjá að hópar í samfélaginu verða fyrir mismiklum áhrifum af þessum breytingum, s.s. út frá menntun, kyni, aldri, búsetu og ríkisfangi.

Á alþjóðlegum vettvangi

Háskólar Sameinuðu þjóðanna þjálfa ungt fagfólk frá þróunarlöndum með það fyrir augum að auka fjölbreytni og kynna nemendum tækninýjungar á sviði jarðhita, fiskimála og landgræðslu. Að auki stuðlar Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna að auknum skilningi á málefnum kvenna og barna, þar með talið mansali og þrælkun kvenna og barna. Ýmis þróunarverkefni sem Ísland styður beinast að því að efla menntun og halda ungmennum í skóla, meðal annars í Malaví og Úganda. Í samvinnu við Alþjóðabankann vinnur Ísland að því að styrkja sjávarútveg í vestanverðri Afríku. Stefnt er að aukinni samvinnu við bankann á sviði sjávarútvegs á komandi árum. Í austanverðri Afríku hefur Ísland til margra ára unnið rannsóknarstarf í beislun jarðhita í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn og Alþjóðabankann. Með kortlagningu á mögulegri jarðhitavirkjun til raforkuframleiðslu er lagður grunnur að auknum hagvexti og fjölbreytni atvinnulífs til framtíðar.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira