9. Nýsköpun og uppbygging

Byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun

Undirmarkmið:

9.1 Þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla. 

9.2 Stuðlað verði að sjálfbærri iðnþróun fyrir alla og eigi síðar en árið 2030 hafi hlutur iðnaðar í atvinnulífi og vergri landsframleiðslu aukist verulega í ljósi aðstæðna heima fyrir og tvöfaldast í þeim þróunarlöndum sem skemmst eru á veg komin. 

9.3 Aukið verði aðgengi lítilla iðnfyrirtækja og annars konar fyrirtækja, einkum í þróunarlöndum, að fjármálaþjónustu, meðal annars að hagstæðum lánum. Einnig verði þáttur þeirra í verðmætakeðjum og á mörkuðum aukinn.  

9.4 Eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og í auknum mæli innleiði hvert og eitt land tækni og umhverfisvæna verkferla eftir getu. 

9.5 Vísindarannsóknir verði efldar og tæknigeta atvinnugreina í öllum löndum endurbætt, þar á meðal í þróunarlöndum. Eigi síðar en árið 2030 verði ýtt undir nýsköpun og fjölgað störfum við rannsóknir og þróun fyrir hverja milljón íbúa, auk þess sem útgjöld til rannsókna og þróunar hins opinbera og einkageirans verði aukin.  

9.a Stuðlað verði að sjálfbærri uppbyggingu innviða í þróunarlöndum með sveigjanleika að viðmiði, auknum fjárhagsstuðningi og tæknilegum stuðningi við Afríkuríki, þróunarlönd sem eru skemmst á veg komin, landlukt þróunarlönd og þróunarlönd sem eru smáeyríki. 

9.b Stutt verði við tækniþróun, rannsóknir og nýsköpun í þróunarlöndum, meðal annars með því að festa í sessi stefnumótandi umhverfi sem stuðlar til dæmis að fjölbreyttu atvinnulífi og virðisauka. 

9.c Aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði aukið verulega og lagt kapp á að almenningur hafi aðgang að netinu á viðráðanlegu verði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin. 

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Nýsköpun í öllum atvinnugreinum
Efla vísindarannsóknir
Efla innviði í samgöngum og ferðaþjónustu

Fjárfestingar í innviðum svo sem samgöngum, áveitum, orku, upplýsinga- og hugbúnaðartækni eru mikilvægar til þess að ná fram markmiðum um sjálfbæra þróun. Meginmarkmið stefnumótandi áætlana ríkis og sveitarfélaga hverfast að miklu leyti um að innviðir landsins verði öruggir, áreiðanlegir, sjálfbærir og viðnámsþolnir. Innviðir eru lykill að samkeppnishæfni landsins, jafnt samkeppnishæfni atvinnulífsins, þróun byggðarlaga og almennri félagslegri velferð þegnanna.

Ísland er eitt dreifbýlasta land Evrópu með aðeins um 3,4 íbúa á hvern á km2, samanborið við um 116 íbúa á hvern km2 innan ríkja Evrópusambandsins. Uppbygging og viðhald innviða er er krefjandi verkefni því kostnaður þess dreifist á tiltölulega fáar hendur og íslenskt veðurfar reynir talsvert á innviði landsins. Aukið álag og umsvif tengd almennum hagvexti og hröðum vexti í íslenskri ferðaþjónustu hefur haft áhrif á þjónustu, viðhald og rekstur innviðauppbyggingar á flestum sviðum. 

Innviðir á Íslandi

Innviðir rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi eru almennt góðir. Þeir stuðla að eflingu vísindastarfsemi og hagnýtingu þekkingar í þágu samfélags og atvinnulífs. Frumkvöðlastarf er þróttmikið og  góður stuðningur við slík verkefni. Styrkja þarf þó betur afrakstur af frumkvöðlastarfsemi svo hann leiði enn frekar til stofnunar nýrra fyrirtækja og markaðssetningar afurða á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. 

Stór verkefni bíða í uppbyggingu vegakerfisins um allt land ekki síst á höfuðborgarsvæðinu eftir niðurskurð árin eftir hrun. Hafið er átak um nýframkvæmdir og viðhald bæði vegna uppsafnaðrar þarfar en einnig þar sem umferð á vegum hefur aukist um 40% frá 2012-2018. Sömu sögu má segja um bæði flugvelli og hafnir en uppsöfnuð þörf er þar bæði fyrir viðhaldi og endurbyggingu. Hvað varðar flugvelli verður því forgangsraðað að styrkja flugvelli í grunnneti og að endurskoða fyrirkomulag varaflugvalla með tilliti til alþjóðaflugvalla landsins.

Farmflutningar til og frá landinu eru fyrst og fremst með skipum en farþegaflutningar með flugi. Farmflutningar til og frá landinu hafa aukist samhliða mikilli fjölgun ferðamanna og íbúa. Farþegum í millilandaflugi hefur fjölgað hratt en hefur fækkað með innanlandsflugi. Innanlands ferðast langflestir með einkabíl. Farþegum með áætlanabílum fjölgar á höfuðborgarsvæðinu en vegna vaxandi umferðar hefur hlutfall ferða haldist óbreytt. 

Nær allir íbúar landsins búa innan við tvo kílómetra frá heilsársvegi eða 99,98% og þeim byggðum sem ekki njóta vegtengingar allt árið standa til boða almenningssamgöngur með flugi og ferjum.

Árið 2017 var Ísland í efsta sæti lista Alþjóðafjarskiptasambandsins yfir ríki sem hvað best hafa stuðlað að þróun fjarskiptainnviða.  Virk samkeppni á fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaði, fjárfestingar og nýsköpun einkenna þau lönd sem raðast í efstu sæti listans. Gott efnahagsástand, læsi og hátt menntunarstig í löndunum stuðla jafnframt að því að almenningur geti nýtt sér upplýsinga- og fjarskiptatækni. Markmið Íslands um 99,9% aðgengi að 100Mb+ þráðbundnum nettengingum fyrir árslok 2021 er metnaðarfullt markmið í alþjóðlegum samanburði. 

Breiðbandsvæðing landsins er langt komin á markaðsforsendum. Jafnframt er stefnt að því að ljúka ríkisstyrktri lagningu ljósleiðara til lögheimila og fyrirtækja í sveitum landsins í samræmi við fjarskiptaáætlun. Ljósleiðaratenging við útlönd er góð og flutningsgeta talsvert umfram eftirspurn. Engu að síður er unnið að fjölgun tenginga til að bæta öryggi, meðal annars til að efla samkeppni og mæta aukinni eftirspurn frá gagnaverum. 

Flutningskerfi raforku er traust og í stöðugri þróun en flestir landsmenn njóta tryggrar raforku og er unnið að frekari styrkingu þess á jaðarsvæðum. Markmiðið er að framleiðsla og dreifing raforku mæti þörfum atvinnulífs og almennings hvað varðar flutningsgetu og afhendingaröryggi og að kostnaður við flutning og dreifingu á raforku verði jafnaður á milli landshluta, samanber til dæmis byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. 

Sjálfbærir innviðir og iðnaður 

Markmið byggðaáætlunar 2018-2024 er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um allt land. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf og einnig á aðgerðir sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna. Innviðir iðnaðar á Íslandi miða nær undantekningarlaust við bestu fáanlegu tækni. Allir þættir innviða, þar með talið framleiðsluferli, eru í stöðugri þróun þar sem tekið er tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. 

Iðnþróun 

Sjálfbær þróun er grunnstef í stefnu stjórnvalda. Einkum er lögð áhersla á að atvinnuvegir landsins byggi á sjálfbærri nýtingu auðlindanna. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 er lögð áhersla á sjálfbæra framleiðni, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, vöktun á áhættuþáttum og grænar lausnir í þágu umhverfismála. Rannsóknir, þróun og nýsköpun, sem eru forsendur efnahagslegra framfara og samfélagslegs velfarnaðar, tengjast sjálfbærri þróun með skýrum hætti. Áhersla er á þekkingariðnað og aðrar þekkingargreinar en síður á hefðbundinn orkufrekan iðnað. Hlutur þekkingargreina fer ört vaxandi og má taka skapandi greinar sem dæmi um þá þróun. Annað dæmi er vöxtur líftæknigreina eins og líftækniiðnaðar sem sprottið hefur úr frjóum jarðvegi hefðbundinna atvinnuvega eins og sjávarútvegi.

Fjármálaþjónusta fyrirtækja

Aðgengi fyrirtækja að almennri fjármálaþjónustu er almennt gott. Framboð á fjármagni til frumfjárfestinga í sprotafyrirtækjum er minna en eftirspurn og sama gildir um fjármögnun til vaxtar fyrirtækja. Frá árinu 1997 hefur ríkið rekið Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem er frumfjárfestir. Markaðsráðgjöf á vegum hins opinbera er fyrst og fremst veitt af Íslandsstofu og sendiráðum landsins, en Tækniþróunarsjóður styður lítil fyrirtæki og frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu spor á erlendum mörkuðum.

Vísindarannsóknir

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs er lögð áhersla á markvissa uppbyggingu innviða en höfuðáherslan er, eðli máls samkvæmt, á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Leiðarljós stefnunnar er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái þremur prósentum af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024, sem gerir mögulegt að takast betur á við hraðar samfélagsbreytingar og flóknar hnattrænar áskoranir, til dæmis loftslagsbreytingar, fæðuöryggi og lýðheilsu. 

Á alþjóðlegum vettvangi

Styrkleikar Íslands sem hvað best nýtast þróunarlöndum til atvinnuuppbyggingar og styrkingar innviða eru á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar. Þekkingu á þeim sviðum er meðal annars miðlað gegnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en þeir skólar eru dæmi um grunnstofnanir sem yfirfæra bestu fáanlegu þekkingu á sínum sérsviðum til samstarfsríkja Íslands í þróunarlöndum. Markmið Jarðhitaskólans, sem hýstur er hjá Orkustofnun, er að tryggja veita ungum sérfræðingum frá þróunarlöndum sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðvarma. Sjávarútvegsskólinn er hýstur hjá Hafrannsóknastofnun en markmið hans er að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi og fiskveiðum í þróunarlöndum.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira