10. Aukinn jöfnuður

Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa

Undirmarkmið:

10.1 Eigi síðar en árið 2030 hafi varanleg tekjuaukning náð fram að ganga í áföngum fyrir 40% þess mannfjölda sem tekjulægstur er og verði hlutfallslega hærri en meðallaunahækkanir á landsvísu. 

10.2 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum gert kleift að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti af efnahagsmálum og stjórnmálum, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða, efnahags eða annarrar stöðu.

10.3 Tryggð verði jöfn tækifæri og dregið úr ójöfnuði, meðal annars með afnámi laga, breyttri stefnumótun og starfsháttum sem ala á mismunun, samhliða því að þrýsta á lagasetningu, stefnumótun og starfshætti sem styðja við markmiðið. 

10.4 Mörkuð verði stefna í ríkisfjármálum, launamálum og á félagslegu sviði með það fyrir augum að auka jafnrétti stig af stigi. 

10.5 Reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og því regluverki beitt í auknum mæli. 

10.6 Tryggt verði að þróunarlönd komi að ákvörðunum sem eru teknar innan alþjóðlegra fjármálastofnana til að auka skilvirkni, trúverðugleika, áreiðanleika og tryggja lögmæti þeirra. 

10.7 Greitt verði fyrir för fólks með því að auðvelda búferlaflutninga og gera þá örugga og reglubundna, meðal annars með því að hrinda stefnumálum á sviði búferlaflutninga í framkvæmd á skipulegan og hagkvæman hátt.  

10.a Fylgt verði meginreglunni um sérkjör þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, í samræmi við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.  

10.b Hvatt verði til opinberrar þróunaraðstoðar og fjárstreymis, meðal annars með beinni fjárfestingu erlendis frá, í ríkjum sem þurfa mest á því að halda, einkum þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin, Afríkuríkjum, smáeyríkjum og landluktum þróunarlöndum, í samræmi við stefnumörkun þeirra og landsáætlanir.

10.c Eigi síðar en árið 2030 verði millifærslugjöld farandverkafólks komin niður fyrir 3% og loku fyrir það skotið að peningasendingar hafi í för með sér hærri kostnað en 5%. 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira