10. Aukinn jöfnuður

Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa

Undirmarkmið:

10.1 Eigi síðar en árið 2030 hafi varanleg tekjuaukning náð fram að ganga í áföngum fyrir 40% þess mannfjölda sem tekjulægstur er og verði hlutfallslega hærri en meðallaunahækkanir á landsvísu. 

10.2 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum gert kleift að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti af efnahagsmálum og stjórnmálum, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða, efnahags eða annarrar stöðu.

10.3 Tryggð verði jöfn tækifæri og dregið úr ójöfnuði, meðal annars með afnámi laga, breyttri stefnumótun og starfsháttum sem ala á mismunun, samhliða því að þrýsta á lagasetningu, stefnumótun og starfshætti sem styðja við markmiðið. 

10.4 Mörkuð verði stefna í ríkisfjármálum, launamálum og á félagslegu sviði með það fyrir augum að auka jafnrétti stig af stigi. 

10.5 Reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og því regluverki beitt í auknum mæli. 

10.6 Tryggt verði að þróunarlönd komi að ákvörðunum sem eru teknar innan alþjóðlegra fjármálastofnana til að auka skilvirkni, trúverðugleika, áreiðanleika og tryggja lögmæti þeirra. 

10.7 Greitt verði fyrir för fólks með því að auðvelda búferlaflutninga og gera þá örugga og reglubundna, meðal annars með því að hrinda stefnumálum á sviði búferlaflutninga í framkvæmd á skipulegan og hagkvæman hátt.  

10.a Fylgt verði meginreglunni um sérkjör þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, í samræmi við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.  

10.b Hvatt verði til opinberrar þróunaraðstoðar og fjárstreymis, meðal annars með beinni fjárfestingu erlendis frá, í ríkjum sem þurfa mest á því að halda, einkum þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin, Afríkuríkjum, smáeyríkjum og landluktum þróunarlöndum, í samræmi við stefnumörkun þeirra og landsáætlanir.

10.c Eigi síðar en árið 2030 verði millifærslugjöld farandverkafólks komin niður fyrir 3% og loku fyrir það skotið að peningasendingar hafi í för með sér hærri kostnað en 5%. 

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Jafna stöðu fólks óháð uppruna, þjóðerni, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund
Skapa tækifæri og aðstæður til að innflytjendur geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi
Húsnæðismál flóttafólks

Á síðustu áratugum hafa stór skref verið stigin á heimsvísu við að minnka ójöfnuð og fátækt. Góður árangur hefur náðst hvað þetta varðar meðal fátækustu ríkja heims þótt enn sé langt í land. Tekjuójöfnuður hefur minnkað á milli ríkja, en hefur aftur á móti aukist innan þeirra. Milli áranna 2009 og 2016 sýndi Gini-stuðullinn þó minnkandi ójöfnuð á Íslandi en hann mældist 29,6% árið 2009, en 24,1% árið 2016.  Vaxandi samstaða er um að hagvöxtur sé einn og sér ekki nægjanleg forsenda þess að minnka fátækt, heldur þurfi stjórnvöld að sjá til þess að hagvöxtur hafi í för með sér ávinning fyrir alla.

Tekjuaukning þeirra tekjulægstu

Ekki er til opinbert lágtekjuviðmið á Íslandi. Sveitarfélög veita fjárhagsaðstoð til framfærslu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en ekki er kveðið á um lágmarksframfærsluviðmið í lögunum. Aðilar vinnumarkaðarins semja fyrir launþega í kjarasamningsviðræðum og gilda þeir samningar sem lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgreinum á þeim svæðum sem samningarnir taka til, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Óheimilt er að gera samninga um lakari kjör en kveðið er á um í almennum kjarasamningum. Almennt er miðað við að bætur og aðrar opinberar greiðslur til framfærslu séu ekki hærri en nemur lágmarkslaunum.

Örorku- og endurhæfingarlífeyrir ásamt tengdum greiðslum er ætlaður til framfærslu þeirra sem hafa skerta starfsgetu og tekjur undir tilteknu viðmiði. Markmiðið er að gera fólki sem býr við þessar aðstæður kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Enn fremur er áhersla lögð á að uppbygging þessara kerfa styðji fólk til virkrar þátttöku í samfélaginu þar með talið til atvinnuþátttöku. Ellilífeyrir almannatrygginga er tekjutengdur og réttindi til hans miðast við 67 ára aldur. Megin lífeyrisgreiðslur aldraðra koma úr lífeyrissjóðakerfinu sem byggist á atvinnuþátttöku og aldraðir hafa greitt til af launum sínum á starfsævinni.

Þátttaka allra í félags-, efnahags- og stjórnmálalífi 

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla fela í sér almennt bann við mismunun á grundvelli kyns. Árið  2018 urðu tvö frumvörp um bann við allri mismunun að lögum. Þar er kveðið á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Lagasetningin er í samræmi við efni tilskipana 2000/78/EB um jafna meðferð á vinnumarkaði og 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna. Samþykkt laganna felur í sér stórt skref í átt að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði og öðrum sviðum samfélagsins.

Jöfn tækifæri tryggð og dregið úr ójöfnuði

Undanfarin ár hefur ýmsum lögum verið breytt með það að markmiði að draga úr ójöfnuði og jafna tækifæri. Má þar nefna breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig má nefna lagabreytingar sem kveða á um einföldun bótakerfisins, breyttan lífeyristökualdur og fleira. Í gildi eru þingsályktanir um framkvæmdaáætlanir með stefnu og aðgerðum sem eiga að stuðla að því að einstaklingar sem standa höllum fæti njóti jafnræðis og standi jafnfætis öðrum. Má til dæmis nefna framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum 2016-2019 , í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021  og í málefnum innflytjenda 2016-2019. 

Í nýjum lögum um opinber fjármál eru sett fram gildi sem fela í sér að ávallt skuli hafa sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi að leiðarljósi. Þá er sérstakt ákvæði um kynjaða fjárlagagerð og hún skal höfð til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Sífellt meiri áhersla er lögð á að sporna við og draga úr mismunun á grundvelli kyns, fötlunar eða annarra þátta í allri stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda.

Í maí 2017 var samþykkt stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021.  Í áætluninni eru tilgreind 40 verkefni á sjö málasviðum sem lúta að aðgengi, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstæðu lífi og þróun þjónustu. Vinna er hafin við um það bil 19 aðgerðir sem ýmist eru í undirbúningsferli, vinnslu eða lokið. Í aðgerðunum felast margar áskoranir sem miða meðal annars að því að jafna aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu, auka atvinnuþátttöku og stuðla að jákvæðu viðhorfi til málefna fatlaðs fólks.  

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir og -stofnanir

Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hafa fjöldamargar Evrópugerðir um eftirlit á fjármálamörkuðum verið innleiddar í íslenskan rétt og mun sú þróun halda áfram næstu ár. Markmiðið er að íslenskt regluverk endurspegli hið evrópska eftir því sem best er unnt en taki mið af íslenskum aðstæðum þar sem slíkt á við. Smæð stjórnsýslunnar hér á landi hefur það í för með sér að Ísland er iðulega síðasta EES-landið til þess að innleiða þessar gerðir. Þónokkur halli var á innleiðingu evrópskra reglna um fjármálamarkað um nokkurra ára skeið meðan leitað var lausna um fyrirkomulag samevrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði sem samræmdust íslenskri stjórnarskrá. Mikilvægur áfangi náðist árið 2017 með samþykkt laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði þar sem kveðið var á um lagagildi reglugerða um hið evrópska eftirlitskerfi á innri markaði Evrópusambandsins. Þá hefur auknu fjármagni verið veitt til þess að draga úr halla á innleiðingum evrópsks regluverks í stjórnsýslunni með ráðningum fleiri sérfræðinga. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lagði mat á fylgni Fjármálaeftirlitsins við 29 kjarnaviðmið Baselnefndar um bankaeftirlit árið 2014. Að mati sjóðsins var lágmarksviðmiðum mætt varðandi sjö af þessum 29 viðmiðum og því ljóst að mörg tækifæri voru til umbóta. Síðan þá hafa þónokkrar breytingar orðið á regluverki fjármálamarkaða og starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Nú stendur yfir sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem mun starfa sem ein stofnun sem fer með peningamál, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlit. Ákveðið var að ráðast í þessa sameiningu meðal annars á grundvelli tillagna innlendra og erlendra sérfræðinga um að þær væru mikil tækifæri til samlegðar, hagræðingar og öflugri yfirsýnar. 

Stjórnvöld hafa stigið nokkur skref til þess að draga úr kostnaði við fjármálaþjónustu. Í fjármálaáætlun 2019-2023 kemur fram að stefnt sé að lækkun sérstaks bankaskatts úr 0,376% í 0,145% á áætlunartímabilinu. Þá hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um lækkun iðgjalds vegna innstæðutrygginga í Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta um þrjátíu prósent. Þessar aðgerðir kunna að leiða til lægri kostnaðar fyrir viðskiptavini bankakerfisins.

Tryggir búferlaflutningar

Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 þegar það var 12,6% mannfjöldans og þar með orðið svipað því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.  Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var samþykkt í september 2016 og gildir út árið 2019.  Áætlunin byggist á fimm stoðum sem eru samfélag, fjölskylda, menntun, vinnumarkaður og flóttafólk. Í áætluninni eru þrjátíu aðgerðir sem eiga allar að stuðla að jöfnum tækifærum allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Framkvæmd vegna nítján aðgerða stendur yfir, fjórum er lokið. 

Helstu áskoranir eru að skapa tækifæri og aðstæður til að innflytjendur geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Alþjóðastofnanir hafa kallað málefni flóttafólks einhverja stærstu áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag og er Ísland þar engin undantekning. Helsta áskorun varðandi flóttafólk þessi misserin er útvegun húsnæðis.

Á alþjóðlegum vettvangi

Jafnrétti kynjanna og réttindi barna og annarra berskjaldaðra hópa er í öndvegi í þróunarsamvinnu Íslands. Sérstakan gaum skal gefa að þeim hópum sem búa við skort á réttindum, eins og hinsegin fólk, fatlað fólk og aðrir sem eiga undir högg að sækja.

Helsta markmið þróunarsamvinnu Íslands er að draga úr ójöfnuði milli og innan landa. Þannig beinir Ísland stórum hluta framlaga sinna til fátækustu ríkjanna með áherslu á að styðja þá hópa sem búa við fátækt og ójöfnuð. Í því felst einkum stuðningur við uppbyggingu félagslegra innviða, ekki síst í dreifbýli, þar sem fátækt er hvað mest. Jafnframt er í íslenskri þróunarsamvinnu áhersla lögð á að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

Nýverið gegndi Ísland varaformennsku í nefnd Sameinuðu þjóðanna um félagslega þróun (e. Commission for Social Development) og leiddi samningaviðræður um meginþema aðalfundar nefndarinnar sem sneri að mögulegum leiðum til að draga úr ójöfnuði. Fastanefnd Íslands hefur einnig tekið virkan þátt í endurskoðun á starfi efnahags– og félagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með því að leiða samningaviðræðu um endurbætur á ráðinu á síðasta ári og sinna stjórnarsetu í nefndum sem vinna að endurbótum.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira