11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær

Undirmarkmið:

11.1 Eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, fátækrahverfi verði endurbætt og grunnþjónusta standi öllum til boða. 

11.2 Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum. 

11.3 Eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær og íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni. 

11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins.  

11.5 Eigi síðar en árið 2030 dragi úr fjölda þeirra sem deyja í hamförum og þeirra sem bíða skaða af þeim völdum. Dregið verði úr beinu efnahagslegu tjóni af völdum hamfara, í hlutfalli af vergri landsframleiðslu í alþjóðlegum samanburði, þar á meðal vatnstjóni, og áhersla lögð á að vernda fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu. 

11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, meðal annars með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs. 

11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði græn svæði gerð örugg og aðgengileg fyrir almenning, einkum konur og börn, aldraða og fatlað fólk. 

11.a Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.  

11.b Eigi síðar en árið 2020 hafi borgum og íbúðarsvæðum fjölgað þar sem áætlanir og stefnumál eru samþætt og miða að aðkomu allra, auðlindanýting verði betri, dregið hafi úr skaðsemi af völdum loftslagsbreytinga og forvarnir gegn hamförum hafi verið efldar. Útbúin verði heildræn áhættustýring vegna hvers kyns hamfara í samræmi við Sendairammaáætlunina 2015–2030 og henni framfylgt.

11.c Stuðningur verði veittur þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin, meðal annars fjárhags- og tækniaðstoð, til þess að reisa öflugar byggingar úr byggingarefni á staðnum. 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira