11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær

Undirmarkmið:

11.1 Eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, fátækrahverfi verði endurbætt og grunnþjónusta standi öllum til boða. 

11.2 Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum. 

11.3 Eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær og íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni. 

11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins.  

11.5 Eigi síðar en árið 2030 dragi úr fjölda þeirra sem deyja í hamförum og þeirra sem bíða skaða af þeim völdum. Dregið verði úr beinu efnahagslegu tjóni af völdum hamfara, í hlutfalli af vergri landsframleiðslu í alþjóðlegum samanburði, þar á meðal vatnstjóni, og áhersla lögð á að vernda fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu. 

11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, meðal annars með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs. 

11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði græn svæði gerð örugg og aðgengileg fyrir almenning, einkum konur og börn, aldraða og fatlað fólk. 

11.a Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.  

11.b Eigi síðar en árið 2020 hafi borgum og íbúðarsvæðum fjölgað þar sem áætlanir og stefnumál eru samþætt og miða að aðkomu allra, auðlindanýting verði betri, dregið hafi úr skaðsemi af völdum loftslagsbreytinga og forvarnir gegn hamförum hafi verið efldar. Útbúin verði heildræn áhættustýring vegna hvers kyns hamfara í samræmi við Sendairammaáætlunina 2015–2030 og henni framfylgt.

11.c Stuðningur verði veittur þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin, meðal annars fjárhags- og tækniaðstoð, til þess að reisa öflugar byggingar úr byggingarefni á staðnum. 

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Sjálfbær borgarþróun sem tryggir viðunandi búsetuaðstæður
Framboð húsnæðis sem hentar tekju- og eignalágum
Áskoranir vegna strjálbýlis, svo sem fjarskipti og almenningssamgöngur

Þéttbýlismyndun á Íslandi hefur verið hröð og þróun sjálfbærra borga og bæja verður æ mikilvægari.  Þéttbýli getur skapað aðstæður þar sem ný störf verða til og velmegun fólks eykst. Að viðhalda slíku ástandi, án þess að skaða umhverfi og auðlindir, felur í sér margar áskoranir. Algeng vandamál tengd þéttbýli fela meðal annars í sér ónægt fjármagn til þess að sinna grunnþjónustu, skort á fullnægjandi húsnæði og hnignandi innviði. Markmiðið um sjálfbærar borgir og samfélög leggur því áherslu á að allir íbúar í þéttbýli hafi jafnan aðgang að grunnþjónustu, heilsusamlegu umhverfi, orku, húsnæði og samgöngum. 

Ísland er mjög dreifbýlt land en á hverjum ferkílómetra búa um það bil þrír einstaklingar. Þrátt fyrir það býr meirihluti Íslendinga, eða um 94%, í þéttbýli.  Í upphafi árs 2016 voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri samkvæmt tölum Hagstofunnar, en rúmlega 60% íbúanna eru á höfuðborgarsvæðinu. 

Sjálfbær borgar- og bæjarþróun

Meðal helstu áskorana stjórnvalda er að vinna að félags-, umhverfis- og efnahagsþróun í borgum og bæjum. Sjálfbær borgarþróun byggist á heildarsýn og felur í sér aðgerðir og samþættar lausnir fyrir skipulag og uppbyggingu innviða og mannvirkja sem tryggja aukna sjálfbærni og viðunandi búsetuaðstæður.

Sjálfbærar flutningslausnir og loftslagsvænar samgöngur eru snar þáttur í borgar- og bæjarþróunar. Græn svæði í borgum, garðar, nálæg útivistarsvæði og viðnámsþolin vistkerfi bæta loftgæði og forsendur fyrir loftslagsaðlögun og lífsgæði. Tryggja þarf góða hljóðvist í þéttbýli.  Markviss áhersla á sjálfbærar borgir og samfélög í allri skipulagsvinnu og framkvæmd getur stuðlað að því að leysa loftslags- og umhverfisvanda í þéttbýli.

Sérstaklega þarf að huga að réttindum og tækifærum fatlaðs fólks til að lifa, starfa og búa án aðgreiningar og til að hafa raunhæf tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs.

Húsnæði og almenningssamgöngur

Þörf er á auknu framboði á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og er unnið að því að fjölga slíkum íbúðum á grundvelli laga frá 2016 um almennar íbúðir. Árið 2014 var meðalhlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum leigjenda 24,3% og hlutfall leigjenda sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað 18,7%. Þá var meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu 26,6 mánuðir árið 2015.  

Í lok árs 2018 og ársbyrjun 2019 starfaði átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Hópurinn skilaði forsætisráðherra fjörutíu tillögum.  Að mati hópsins liggur óuppfyllt íbúðaþörf á bilinu fimm til átta þúsund íbúðir á landinu öllu. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og áætlað er að um tíu þúsund íbúðir verði byggðar á árum 2019–2021. Gangi þær áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf minnka til muna en hún verður engu að síður um tvö þúsund íbúðir í upphafi árs 2022. 

Þrátt fyrir mikla uppbyggingu eru vísbendingar um að það framboð sem nú er að myndast muni síður henta tekju- og eignalágum. Stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst. Í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fermetraverð er lægra virðist mest vera byggt af stærri íbúðum sem geta þar með síður talist hagkvæmar. Því er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar.

Almenningssamgöngur hafa á síðustu árum eflst, eftir nokkurn samdrátt, með endurskipulögðu áætlanakerfi og betri samþættingu mismunandi ferðamáta. Stefnt er að því að allir þéttbýlisstaðir með fleiri en 100 íbúa verði tengdir með almenningssamgöngum; áætlanabílum, ferjum og/eða flugi. Alls má áætla að um 95% Íslendinga búi í innan við tíu kílómetra fjarlægð frá stoppistöð í netinu. Miðað er við að allir íbúar geti nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á skemmri tíma en 3,5 klst.

Fyrir aldraða og fatlaða er rekin sérstök ferðaþjónusta á vegum sveitarfélaga. Börn sem búa fjarri skólum fá skólaakstur. Verið er að skoða hvort til staðar sé kynbundinn munur á notkun samgöngukerfisins.

Drög að stefnu í almenningssamgöngum hefur verið kynnt og er í almennu samráði ásamt aðgerðaáætlun.  Helstu áherslur eru:
Flug, ferjur og almenningsvagnar myndi eina heild.
Aukin þjónusta við farþega með samþættu upplýsingakerfi þvert á samgöngumáta. 
Samræmd þjónustuviðmið fyrir leiðarkerfi allra samgöngumáta.
Uppbygging á hágæða almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Loftgæði

Loftgæði á Íslandi eru almennt góð þrátt fyrir að sum loftmengunarefni fari yfir skilgreind viðmiðunarmörk nokkrum sinnum á ári. Veðurfar getur verið áhrifavaldur í því þegar mengandi efni fara yfir mörk. Helstu uppsprettur svifryks í þéttbýli eru umferð (slit gatna, útblástur bíla og fleira), byggingarframkvæmdir og uppþyrlun göturyks. Auk þess er mikil svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu um áramót af völdum skotelda. Utan þéttbýlisstaða eru uppsprettur svifryks meðal annars sandfok, eldgos (öskufall/öskufok) og uppþyrlun ryks af malarvegum.

Allnokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á mögulegum heilsufarsáhrifum loftmengunar á Íslandi og margar þeirra sýna fram á samband milli þessara þátta. Rannsóknirnar hafa ýmist beinst að loftmengun af völdum mannlegra athafna (umferð og jarðvarmavirkjanir, svifryk og önnur umferðartengd loftmengunarefni) eða vegna náttúrulegra þátta það er eldgosa (aska/svifryk og brennisteinsdíoxíð). 

Á Íslandi eru mörg sóknarfæri sem hægt er að nýta til að bæta loftgæði í landinu en í því sambandi er mikilvægt að efla vitund fólks um mál tengdum loftgæðum. Með aukinni vitneskju um loftgæði verða einstaklingar meðvitaðri um hvers konar loftmengun er í landinu, hvað megi gera til að takmarka hana og heilsufarsleg áhrif hennar. Í nóvember 2017 gaf umhverfis- og auðlindaráðherra út áætlun um loftgæði; Hreint loft til framtíðar – áætlun um loftgæði á Íslandi. Ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar er í höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem í samstarfi við ýmsa aðila vinnur að nánari útfærslu einstakra þátta hennar og skal endurskoða markmið áætlunarinnar á fjögurra ára fresti. Fylgja á loftgæðaáætluninni á öllum stigum stjórnsýslunnar og á hún að vera viðmið fyrir stefnumótun þeirra sem starfa á sviðum þar sem losun og styrkur loftmengunarefna koma við sögu. Stýrihópur hefur umsjón með framkvæmd áætlunarinnar, kannar reglulega hvernig framkvæmdum aðgerða í loftgæðaáætluninni miðar og upplýsir ráðherra um stöðuna.

Almannavarnir

Markmið stefnu í almannavarna- og öryggismálum er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða að umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara. Almannavarnalögin kveða á um samhæft viðbúnaðarkerfi vegna hættuástands, meðal annars vegna hamfara þar sem lögð er áhersla á forvarnir og áhættugreiningu, mótvægisaðgerðir til þess að styrkja áfallaþol, skýrt stjórnkerfi og boðleiðir þegar brugðist er við hættuástandi, og aðgerðir til endurreisnar í kjölfar áfalla.

Vernda og tryggja menningar- og náttúruarfleifð

Menningar- og náttúruminjar eru verndaðar með lögum. Markmið laganna er að tryggja varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim. Drög að stefnu innan málaflokksins til næstu fjögurra ára, sem nú er unnið að, hefur sex meginmarkmið, það er að styrkja minjavörsluna, auka vitundarvakningu um menningarminjar, ljúka skráningu menningarminja, stuðla að rannsóknum á minjum, nýta minjar á sjálfbæran og skynsamlegan hátt í þágu samfélagsins og efla samvinnu landsmanna, jafnt lærðra sem leikra um minjavernd.

Markmið laga um náttúruvernd er að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt. Í lögunum er einnig að finna ákvæði sem stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum breytingum á náttúrunni. Jafnframt miða þau að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda og annarra náttúrugæða. Lögunum er einnig ætlað að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf né land, loft eða lögur. Þau eiga að auðvelda umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast og efla þekkingu og fræðslu um náttúruna. Einnig tryggja lögin rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna, landsmönnum til heilsubótar og aukinnar velsældar.

Markmið laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í tengslum við fjölgun ferðamanna við helstu náttúruperlur og menningarminjastaði á Íslandi. Annars vegar er um að ræða efnislega innviði sem aukið geta álagsþol viðkomandi staðar af völdum aukinnar ferðamennsku. Hins vegar er um að ræða óefnislega innviði, þar með talið umgengnisreglur og landvörslu, sem miða fyrst og fremst að því að vernda viðkomandi stað fyrir auknum ágangi án þess að breyta yfirbragði hans til langframa. Landsáætlun skiptist í stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára og þriggja ára verkefnaáætlun og hófst innleiðing hennar árið 2018.

Byggðaáætlun

Unnið er að því að styðja við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með byggðaáætlun stjórnvalda. Sóknaráætlanir landshluta skilgreina svæðisbundnar áherslur byggðaáætlunar og taka mið af öðrum áætlunum ríkisins. Með þeim er sett fram langtímastefnumótun hvers landshluta og framtíðarsýn. Þannig er sóknaráætlununum ætlað að skapa aukna festu og efla fagleg vinnubrögð við áætlanagerð á sviði byggðamála. Með fyrirkomulaginu næst betri nýting á fjármunum og ákvarðanataka er færð nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Grunnstefið sem snýr að Íslandi er hvort byggðastefna leiði til minnkandi einangrunar tiltekinna þjóðfélagshópa og að jafnvægi sé á milli þéttbýlis- og dreifbýlisþróunar, til dæmis varðandi uppbyggingu innviða og þjónustu.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira