12. Ábyrg neysla og framleiðsla

Sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð

Undirmarkmið:

12.1 Hrundið verði í framkvæmd tíu ára rammaáætlunum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu þar sem öll lönd, með hátekjuríkin í fararbroddi, grípa til aðgerða. Tekið verði tillit til þróunar og getu þróunarlandanna. 

12.2 Eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð. 

12.3 Eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling um heim allan. Nýting í matvælaframleiðslu og hjá birgðakeðjum verði bætt, þ.m.t. við uppskeru. 

12.4 Eigi síðar en árið 2020 verði meðferð efna og efnablandna umhverfisvænni á öllum stigum, sem og meðhöndlun úrgangs með slíkum spilliefnum, í samræmi við alþjóðlegar rammaáætlanir sem samþykktar hafa verið. Dregið verði verulega úr losun efna og efnablandna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg í því skyni að lágmarka skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfið.

12.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi forvarnir, minni úrgangur, aukin endurvinnsla og endurnýting dregið verulega úr sóun. 

12.6 Fyrirtæki, einkum stór og alþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og veita upplýsingar um sjálfbærni í skýrslum sem gefnar eru út á þeirra vegum. 

12.7 Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.  

12.8 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna.  

12.a Þróunarlönd fái stuðning til þess að auka vísinda- og tækniþekkingu í því skyni að þoka neyslu og framleiðslu í átt til aukinnar sjálfbærni.

12.b Þróuð verði tæki til þess að fylgjast með áhrifum sjálfbærrar þróunar á ferðaþjónustu sem leiðir af sér störf og ýtir undir staðbundna menningu og framleiðslu. 

12.c Óhagkvæmar niðurgreiðslur vegna jarðefnaeldsneytis, sem ýta undir sóun, verði færðar til betri vegar með því að aflétta markaðshömlum, í samræmi við innlendar aðstæður, meðal annars með því að endurskipuleggja skattlagningu og leggja niðurgreiðslur niður í áföngum í ljósi skaðlegra umhverfislegra áhrifa. Tekið verði fullt tillit til sérþarfa og aðstæðna þróunarlanda og haldið í skefjum aðgerðum sem gætu haft skaðleg áhrif á þróun fátækra samfélaga.

 

Staðan á Íslandi

HELSTU ÁSKORANIR:

Minnka neyslu, draga úr matarsóun og minnka þar með vistspor Íslendinga
Innleiða hringrásarhugsun í alla neyslu og framleiðslu til að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar
Ferðaþjónusta í sátt við náttúru og samfélag

Ábyrg neysla og framleiðsla felur í sér sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda og orku, aðgang almennings að grunnþjónustu og grænum störfum og bætt lífsgæði allra. Innleiðing markmiðsins hjálpar til við að draga úr efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum kostnaði í framtíðinni, styrkir samkeppnishæfni og dregur úr fátækt.

Ísland stendur frammi fyrir töluverðum áskorunum til að ná markmiðum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Nýting náttúruauðlinda, til dæmis til orkuvinnslu, fiskveiða, ferðaþjónustu, landbúnaðar og ýmis konar iðnaðar, eru meginstoðir í íslenska hagkerfinu. Því er mikið hagsmunamál að tryggja sjálfbæra og skilvirka nýtingu auðlindanna og tryggja að hún fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar. Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar til að greina sjálfbærni, meðal annars hefur Global Footprint Network sett fram aðferðir til að reikna út vistspor ríkja heims.  Samkvæmt niðurstöðum þeirra er ljóst að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa verk að vinna við að draga úr vistspori sínu.

Sjálfbær neysla og framleiðsla og skilvirk nýting auðlinda 

Íslensk stjórnvöld hafa ekki sett fram sérstaka áætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu en síaukin áhersla er lögð á að bæta nýtingu og umgengni við auðlindir landsins. Undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019 er verið að vinna vegvísi með það að markmiði að styðja lítil samfélög á Norðurlöndum til að gera áætlanir um sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Fiskveiðistjórnarkerfi Íslands er dæmi um afar skilvirka nýtingu auðlinda en fiskveiðar hafa í aldanna rás verið hornsteinn í íslensku efnahagslífi og fyrir fæðuöflun landsmanna. Fiskveiðistjórnarkerfið byggist á víðtækum rannsóknum á fiskstofnum og vistkerfi hafsins. Margir nytjastofnar á Íslandsmiðum hafa fengið vottun samkvæmt stöðlum sem eru í samræmi við alþjóðlegar samþykktir um sjálfbærni í fiskveiðum. 

Stefna íslenskra stjórnvalda „Saman gegn sóun“ er stefna Íslands um úrgangsforvarnir fyrir tímabilið 2016–2027. Í stefnunni er megináhersla lögð á níu flokka, þar af eru sex þeirra; matvæli, plast, textíl, raftæki, grænar byggingar og pappír. Einnig er gert ráð fyrir að unnið verði til lengri tíma með aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og að draga úr myndun úrgangs frá stóriðju. Í viðauka við stefnuna eru settir fram mælikvarðar og markmið fyrir plast, textíl, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og ál- og kísilmálmframleiðslu. Stefnan er í endurskoðun og verið er að taka mið af hringrásarhagkerfinu.

Stjórnvöld hafa unnið samkvæmt stefnu um vistvæn opinber innkaup frá árinu 2009. Stefnan var uppfærð 2013 með gildistíma til ársloka 2016.  Ný lög um opinber innkaup tóku gildi 2016. Þar voru veittar auknar heimildir til að taka tillit til umhverfisverndar, sjálfbærni, félagslegra markmiða og nýsköpunar við opinber innkaup. Í samræmi við nýjar áherslur er unnið að útgáfu nýrrar innkaupastefnu ríkisins þar sem verða auknar áherslur á sjálfbær innkaup og mörkuð skýr stefna til framtíðar.

Úrgangsforvarnir og efnanotkun

Eitt af markmiðum úrgangsforvarnastefnunnar er að draga úr matarsóun, meðal annars til að bæta nýtingu auðlinda og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstöður fyrstu rannsóknar á sóun matvæla á Íslandi voru birtar 2016 og sýndu þær að matarsóun á heimilum á Íslandi sé sambærileg og í öðrum Evrópulöndum.  Í framhaldi af þeim verkefnum um matarsóun sem ýtt hefur verið úr vör verða markmið og mælikvarðar útfærð nánar í því skyni að draga úr matarsóun á hvern íbúa um tiltekið magn (kg á íbúa) innan tiltekins tíma. 

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur Ísland náð markmiðum úrgangslöggjafar ESB nema hvað varðar gler, timbur og lífrænan úrgang. Árið 2015 fóru tæp 78% heildarúrgangs í endurvinnslu eða aðra endurnýtingu og tæplega 88% af efnaúrgangi fóru til endurvinnslu en rúmlega tólf prósent voru brennd eða urðuð. Rúmlega 99% af blönduðum heimilisúrgangi voru urðuð eða brennd án orkunýtingar.  Þá eru gerðar kröfur um að tiltekin mengandi fyrirtæki skili grænu bókhaldi. 

Örugg efna- og úrgangsstjórnun eru grunnur að heilsuvernd og að tryggja sjálfbæra framleiðslu og þannig sjálfbæra neyslu. Efnalöggjöf á Íslandi er sambærileg við efnalöggjöf ESB en Ísland er aðili að Stokkhólmssamningnum um þrávirk lífræn efni og Basel-samningnum um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa. Þá er Ísland aðili að Minamatasamningnum um kvikasilfur, Efnavopnasamningnum, Vínarsamningnum um vernd ósonlagsins og Montrealbókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins og þeim hluta LRTAP (Long-Range Transboundary Air Pollution) samningsins sem fjallar um þrávirk lífræn efni. Ákvæði flestra framangreindra samninga eru innleidd með aðild Íslands að EES-samningnum. Þá hefur fullgilding BAN-viðauka við Basel-samninginn tekið gildi. Unnið er að fullgildingu Kigali-breytingarinnar við Montrealbókunina. 

Aukin sjálfbærni í ferðaþjónustu

Þróun ferðaþjónustu á Íslandi hefur verið mjög hröð á síðustu tíu árum og er greinin nú orðin ein af meginstoðum gjaldeyristekna þjóðarinnar. Hröðum vexti fylgja ýmsar áskoranir, ekki síst við að tryggja áframhaldandi verðmætasköpun samhliða vernd umhverfis og auðlinda, en náttúra Íslands er ein helsta forsenda fyrir viðgangi ferðaþjónustu í landinu. Í ljósi þessa hafa aðgerðir stjórnvalda síðustu ár meðal annars miðað að því að vernda náttúru með bættum innviðum á ferðamannastöðum, dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið, auka öryggi og stuðla að ábyrgri ferðahegðun. 

Ýmis verkefni á vegum stjórnvalda miða að því að bæta skipulag og stýringu innan ferðaþjónustu. Unnið hefur verið að því að efla rannsóknir á þróun og áhrifum ferðaþjónustu, m.a. hvað varðar umhverfi og samfélag. Hafa nú verið skilgreindir yfir 60 mælikvarðar sem munu nýtast við gerð álagsmats umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna á Íslandi. Samhliða stendur yfir vinna við að móta leiðarljós greinarinnar til framtíðar. Hvort tveggja verður lagt til grundvallar við endurskoðun á langtímastefnu um sjálfbæra þróun greinarinnar. 

Áhersla fyrirtækja á samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Fjöldi fyrirtæki á Íslandi hefur sett sér stefnu um samfélagsábyrgð og gefur árlega út sjálfbærniskýrslur. Þetta er í takt við lög um ársreikninga þar sem kveðið er á um skyldu stórra félaga og eininga tengdum almannahagsmunum til birtingar ófjárhagslegra upplýsinga. Nokkur félög á Íslandi hafa farið þá leið að styðjast við viðmið UN Global Compact  um sjálfbærni auk þess sem vaxandi fjöldi fyrirtækja styðst við alþjóðleg mælitæki samfélagsábyrgðar á borð við Global Reporting Initiative eða ESG upplýsingagjöf á umhverfis- og samfélagsháttum auk stjórnarhátta. Einnig er kominn hvati að ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum eftir að árið 2017 voru lögfestar kröfur um siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða.

Á alþjóðlegum vettvangi

Eins og fram kemur hér að framan tekur Ísland tekur þátt í fjölþættu alþjóðlegu samstarfi um efna- og úrgangssamninga. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland aukinheldur tekið þátt í að mæla fyrir umbótum á sviði skaðlegra ríkisstyrkja til jarðefniseldsneyta, meðal annars með þátttöku í sameiginlegri ráðherrayfirlýsingu þess efnis á 11. ráðherrafundi WTO í Buenos Aires. Þá tekur Ísland virkan þátt í norrænu samstarfi á sviði ábyrgrar neyslu og framleiðslu og hefur meðal annars haft forgöngu um norrænt verkefni og mótun stefnu um lífhagkerfið. Ísland tekur einnig þátt í efnasamstarfi ESB á vegum Efnastofnunar Evrópu (ECHA) auk þess sem allir skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi miða að því að gera framleiðsluhætti sjálfbærari, til að mynda með því að stuðla að sjálfbærri landnýtingu og fiskveiðistjórn.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira