Vistheimt með skólum

Fyrirtækja logo Landvernd
Landvernd
8. október 2020

Í Vistheimt með skólum feta nemendur í fótspor vísindafólks og læra um mikilvægi gróður- og jarðvegs, lífbreytileika og vistheimtar í baráttunni gegn loftslagshamförum.

Heimsmarkmið sem tengjast verkefninu

Verkefnalýsing

Vistheimt með skólum er fræðsluverkefni í grunn- og framhaldsskólum um vistheimt. Verkefnið beinir sjónum nemenda að endurheimt náttúrulegra gæða og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, líffræðilega fjölbreytni og baráttuna við loftslagshamfarir. Þátttakendur verkefnisins fá tækifæri til að feta í fótspor vísindafólks með náinni samvinnu Landverndar, Landgræðslunnar og þátttökuskóla. Nemendur og kennarar vinna með færustu sérfræðingum að tilraunum á örfoka landi, að mælingum á framvindu gróður- og dýrasamfélaga og að verkefnum í tengslum við endurheimt votlendis. Nemendur læra leiðir til að binda kolefni og auka líffræðilega fjölbreytni svæða, lögð er áhersla á að þeir komi með sínar eigin hugmyndir og að verkefnin séu uppbyggileg, jákvæð og lausnamiðuð. Verkefnið styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hefur verið í þróun síðan 2013.

Markmið verkefnis

Vistheimt með skólum stuðlar að aukinni þekkingu ungmenna og kennara á vistheimt sem aðgerð til að sporna gegn risavöxnum, alþjóðlegum umhverfisvanda. Lögð er áhersla á að nemendur læri landlæsi, skilji orsakir og afleiðingar flókinna hnattrænna umhverfisvandamála um leið og þeir taka þátt í að leysa þau. Slík þáttaka er árangursrík leið til að koma til móts við vaxandi loftlagskvíða ungmenna.

Hvenær er áætlað að markmiðinu verði náð?

Vistheimt með skólum er langtímaverkefni og markmiðum þess verður náð þegar þekking þátttökuskólanna um vistheimt og stóru umhverfismálin fer að síast út í samfélagið. ;Námsefnið "Vistheimt á gróðursnauðu landi" fyrir miðstig var gefið út 2017. ;Námsefni um vistheimt fyrir unglingastig og framahaldsskóla verður gefið út 2021 í samstarfi við Menntamálastofnun.

Mældur árangur

Árangur er m.a. mældur í fjölda þátttökuskóla, umfangi vistheimtaraðgerða nemenda og með spurningakönnunum innan og utan þátttökuskólanna.

Tengdir hlekkir

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira